Fregnir af mögulegu bóluefni við veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum gætu, ef allt fer á besta veg, virkað sem sterasprauta fyrir rekstraraðila sem hafa verið í öndunarvél hins opinbera og lánastofnana vegna hruns ferðaþjónustunnar. Fregnirnar eru í það minnsta jákvæðar að sögn framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF).

Jákvæð tíðindi af tilraunastofum heimsins hafa í vikunni blásið heimsbyggðinni kærkominni bjartsýni í brjóst. Íslensk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau hefðu tryggt sér, í gegnum Evrópusamstarf, skammta af bóluefni frá Pfizer þegar það kemur á markað en heimildir blaðsins herma enn fremur að angar séu úti hvað bóluefni AstraZeneca varðar. Viðbúið er að framlínustarfsfólk og einstaklingar í áhættuhópum fengju fyrstu skammtana en bjartsýnustu vonir standa til þess að almenningur geti komist í sprautu á vormánuðum næsta árs. Áætlanagerð byggir þó sem fyrr á því að vonast eftir því besta en gera ráð fyrir því versta.

„Þessi tíðindi eru að sjálfsögðu jákvæð og til þess fallin að auka traust fólks til ferðalaga á nýjan leik. Ef allt fer á besta veg þá gæti þetta þýtt að samfélög heimsins færist nær eðlilegu horfi á vormánuðum næsta árs,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF.

Í þessum efnum gæti fámenni Íslands verið gífurlegur kostur þar sem færri skammta þyrfti hingað til lands, heldur en í fjölmennari ríkjum, til að líkurnar á hópsýkingum verði hverfandi. Spurður um hvort möguleikar gætu opnast á að markaðssetja Ísland á grunni umfangsmikillar bólusetningar segir Jóhannes Þór að auðvitað megi ávallt leika sér með alls konar sviðsmyndir.

„Smæðin vinnur að sjálfsögðu með okkur að þessu leyti. Landið er strjálbýlt og vonandi gæti það unnið með okkur að fólk hefur mögulega minni áhuga á dvöl í margmenni eftir veiruna. Grundvallaratriðið er samt að þetta er til þess fallið að auka traust fólks á ferðalögum á ný,“ segir Jóhannes Þór.

Stór hluti greinarinnar er sem stendur háður aðgerðum stjórnvalda og náð lánardrotta hvað rekstrarhæfi varðar. Ljóst er að fyrir sum þeirra mun það aðeins þýða gálgafrest en vonir standa þó til að sem flest lífvænleg félög standi af sér storminn.

„Þessar fregnir verða vonandi til þess að fleiri rekstraraðilar sjái fram á einhverja vertíð næsta sumar sem yrði þess virði að þrauka veturinn. Þetta hefur líka eflaust áhrif á lánastofnanir og að þær verði viljugri til að lána eða gefa þann slaka sem þarf á síðustu metrunum til að ná inn á háönnina. Heilt yfir eru þetta því jákvæð teikn,“ segir Jóhannes Þór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .