Forseti Brasilíu, Luiz Inacio Lula da Silva, segist bjartsýnn á að samningaviðræður um innflutningstolla hefjist að nýju á næstunni.  Eins og fjallað hefur verið um enduðu Doha-viðræðurnar í Genf á dögunum án þess að nokkur niðurstaða fengist.

Forseti Brasilíu hefur þegar rætt við George W. Bush, Bandaríkjaforseta, og hyggst á næstunni ræða við leiðtoga Indlands og Kína um að hefja viðræður að nýju.

Lula da Silva segist telja að niðurstaða myndi fást úr viðræðunum ef Indland og Bandaríkin geta komist að samkomulagi um tolla af landbúnaðarvörum. Að hans sögn olli ósamkomulag Indlands og Bandaríkjanna um þau mál því að slitnaði upp úr viðræðunum á dögunum.