Pálmi Þór Másson, bæjarstjóri Álftaness, er bjartsýnn á að íbúar beggja sveitarfélaganna samþykki sameiningu þeirra. Greint var frá því í dag að kosið verður um sameiningu í haust, en nefnd um málið sendi málið til umræðu í bæjarstjórnum. Það þýðir að íbúakosning verður haldin í haust. Pálmi Þór telur að þegar bæjarstjórnir fái tækifæri til þess að kynna sameiningaráform fyrir íbúum hljóti það hljómgrunn bæði í Garðabæ og á Álftanesi.

Ítarleg skýrsla um útfærslur og stöðu sveitarfélaganna verður birt síðar í dag. Sveitarfélagið Álftanes hefur allt frá haustdögum 2009 staðið í endurskipulagningu rekstrar og skulda en bæjarfélagið hefur verið afar illa statt. Pálmi segir í samtali við Viðskiptablaðið að mikil áhersla hafi verið lögð á að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu en eitt skilyrða stjórnvalda er að Álftanes sameinist öðru sveitarfélagi. Aðspurður um fjárhagslega aðkomu ríkisins segir hann að hún felist fyrst og fremst í framlagi í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þá hafi verið samið við kröfuhafa og endurfjármögnun lána.