Þann 20. júní síðastliðinn undirrituðu fjármálafyrirtækin Kvika banki og Gamma viljayfirlýsingu um kaup þess fyrrnefnda á því síðarnefnda. Síðastliðinn mánudag var síðan gerður samningur um kaupin, en markmiðið er sagt vera að „styrkja bankann enn frekar á sviði eigna- og sjóðastýringar“.

Nokkra athygli vakti að kaupverðið hafði lækkað um tæpan milljarð. Rekstur og verðmæti eigna Gamma á næstu misserum geta þó haft áhrif á hið endanlega kaupverð, auk þess sem samsetning kaupverðsins hefur tekið breytingum. Valdimar Ármann, forstjóri Gamma, segir málið því flóknara en svo að hægt sé að bera tölurnar tvær saman með einföldum hætti. „Kaupverðið bæði lækkar og samsetning þess tekur breytingum, svo þetta er ekki alveg samanburðarhæft. Tölurnar sem eru samanburðarhæfar að mestu leyti eru að viljayfirlýsingin sagði að kaupverðið væri 3,8 milljarðar, en kaupsamningurinn er núna upp á 2,9 milljarða.

Kaupverðið getur svo tekið hækkun eða lækkun eftir því hvernig aðstæður þróast áfram. Ef afkoma fyrirtækisins batnar á næstu misserum þá hækkar kaupverðið. Við sjáum þar tækifæri til að komast ofar og draga úr þessum mismun milli upphaflega verðsins og endanlegs.“

Kólnandi hagkerfi og versnandi væntingar ástæður lækkunar
Ástæðuna fyrir lækkun kaupverðsins eins og það stendur í dag segir Valdimar vera þá að hluthafar Gamma taki í reynd á sig markaðsáhættu meðan á ferlinu stendur, og aðstæður hafi versnað nokkuð síðan viljayfirlýsingin var undirrituð í sumar. „Áhættunni af markaðsaðstæðum er í rauninni velt yfir á okkur. Ástæðuna fyrir lækkun kaupverðsins má því að einhverju leyti rekja til þess að markaðir hafa ekki verið okkur alveg hliðhollir, og sjóðirnir því verið að skila lægri tekjum.

Kólnandi hagkerfi og slakir markaðir hafa minnkað væntingar að einhverju leyti um framtíðarhorfur og afkoman verið í samræmi við það. Það er auðvitað alveg eðlilegt fyrir kaupandann að vera varkár. Ef þetta snýst við þá njótum við ábata af því, ásamt Kviku, en ef það gerist ekki þá tökum við í raun svolítið áhættuna af því,“ segir Valdimar, sem er bjartsýnn á að markaðir verði þeim hliðhollir á ný og afkoman batni.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir áreiðanleikakönnun eftir viljayfirlýsinguna hafa leitt í ljós að forsendur viðmiðunarverðsins í sumar hafi breyst nokkuð síðan þá. „Það er kannski ekki hægt að tengja þetta beint við nein ákveðin atriði en þetta viðmiðunarverð í sumar tók auðvitað mið af eiginfjárstöðunni á þeim tíma og nokkrum forsendum varðandi tekjugrundvöll og hvað það væru miklar eignir í stýringu. Það komu svo fram í áreiðanleikakönnuninni ákveðnar breytingar á þessum þáttum. Fólk metur þetta auðvitað misjafnlega, þetta eru ekki hárnákvæm vísindi, en þetta var niðurstaðan.“

Hann segist þó eftir sem áður bjartsýnn á kaupin. „Við erum ágætlega bjartsýnir á rekstur Gamma og sjáum fyrir okkur að með þeirri samlegð sem felst í kaupunum verði umtalsverður arðsemisbati, sem við höfum áætlað að sé um 300-400 milljónir á ári.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .