*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 29. júní 2018 11:01

Bjartsýnn á bankasölu á kjörtímabilinu

Bjarni Benediktsson vonast til að hægt verði að selja hluti í Landsbankanum og Íslandsbanka á þessu kjörtímabili.

Ingvar Haraldsson
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Mér finnst að það sé tilefni til þess að vera hóflega bjartsýnn að við gætum mögulega á þessu kjörtímabili byrjað að losa um eignarhluti ríkisins,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í kjölfar skráningar  Arion  banka á hlutabréfamarkað á Íslandi og í Svíþjóð fyrr í þessum mánuði. En við þurfum að taka eitt skref í einu og vera meðvituð um að aðstæður geta breyst tiltölulega hratt. Það hefur ekki öllum tekist vel til sem hafa viljað losa um eignarhluti sína í bönkum. Við sjáum dæmi um það frá Evrópu. En ég samt sem áður bendi á að í fjármálaáætlun okkar þá erum við að gera ráð fyrir talsverðum tekjum af fjármálafyrirtækjum með einum eða öðrum hætti til að lækka  vaxtabyrði  á áætlunartímabilinu.” Í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 voru teiknaðar upp sviðsmyndir þar sem umtalsverðar arðgreiðslur yrðu af bönkunum þannig að eigið fé þeirra lækki og að í kjölfarið verði hlutir í bönkunum seldir.

Heimild er í fjárlögum til að selja Íslandsbanka að fullu og 68% hlut í Landsbankanum, en bankarnir eru báðir í eigu ríkisins. Í stjórnarsáttmálanum segir að eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum sé það umfangsmesta í Evrópu og að ríkisstjórnin vilji leita leiða til að draga úr því. „Við erum ekki með væntingar um að geta hafið söluferli á íslensku bönkunum á þessu ári. Við ætlum einfaldlega að taka eitt skref í einu,“ segir hann og bendir á að stærð íslensks fjármálamarkaðar setji ákveðin mörk í þeim efnum. „Hér innan lands eru auðvitað takmörk fyrir því hversu miklu er hægt að koma á markað á skömmum tíma,“ segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.