*

þriðjudagur, 19. október 2021
Innlent 25. apríl 2021 17:28

Bjartsýnni með hverjum deginum

Bjarni er ánægður með þann árangur sem náðst hefur en þykir á sama tíma erfitt að horfa upp á mikið atvinnuleysi.

Andrea Sigurðardóttir
Stóru verkefnin fram undan eru að skapa störf og viðhalda efnahagslegu jafnvægi, að mati fjármálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, ræddi stöðu og horfur í efnahagsmálum í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út fyrir helgi.

Ólíku saman að jafna

Bjarni bendir á að staðan sé mun hagfelldari nú en í fjármálahruninu. „Það er ólíku saman að jafna árin 2020 og 2009. Verðbólga er lág þrátt fyrir að hún sé aðeins yfir markmiði, en vextir hafa lækkað á móti. Við erum að sjá stjórntæki okkar virka mjög vel nú þegar mikið liggur við. Ég er mjög ánægður með þann árangur sem hefur náðst þó að það sé að sjálfsögðu mjög erfitt að horfa upp á þetta mikla atvinnuleysi. Við erum að reyna að vega á móti því með stuðningsaðgerðum auk vaxtarhvetjandi aðgerða þegar þessu ástandi linnir," segir hann.

„Sumt af því sem við höfum gert snýr að bráðavanda á borð við atvinnuleysið, þar má nefna framlengingu tekjutengda tímabilsins og hlutabótaleiðina. Þá má einnig nefna sérstakar aðgerðir sem snúa að fyrirtækjum á borð við tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og fleira. Samhliða þessum bráðaaðgerðum höfum við horft til lengri tíma, það er til tímabilsins sem tekur við þegar faraldurinn er genginn yfir. Þar má sérstaklega nefna stuðning við rannsóknir og þróun, innspýtingu inn í samkeppnissjóðina, stuðning við frumkvöðlastarf, ívilnandi skattabreytingar til þess að laða fram fjárfestingu, fjárfestingaátak sem ríkið réðist í og annað þess háttar. Þetta eru atriði sem ég tel að við munum búa að þegar ský dregur frá sólu aftur."

Varnarbarátta sterkra lífskjara

„Ég verð bjartsýnni með hverjum deginum sem bólusetningu vindur fram og ég tel að við getum verið mjög bjartsýn fyrir síðari hluta ársins. Það er ekki hlaupið að því að leysa úr þeim áskorunum sem við blasa, til dæmis hvað atvinnuleysið varðar. En við höfum áður séð sveiflur í atvinnustiginu og ef við endurheimtum ferðamenn jöfnum skrefum þá hef ég mjög mikla trú á þeirri atvinnuuppbyggingu sem því mun fylgja," segir Bjarni en verkefnin sem blasa við að afstöðnum faraldri eru þó ekki síður mikilvæg í hans huga.

„Ef við horfum í gegnum faraldurinn sem nú er að líða undir lok tel ég að stóru verkefnin fram undan séu að skapa störf og viðhalda efnahagslegu jafnvægi. Að halda þannig á málum að við missum ekki verðbólguna og vexti af stað. Í því sambandi mun það skipta mjög miklu máli að samkomulag verði á vinnumarkaði. Í mínum huga erum við í varnarbaráttu fyrir ofboðslega sterk lífskjör sem við höfum byggt upp á undanförnum árum. Við þurfum að gæta okkar að fara ekki fram úr okkur og taka meira út en hagkerfið geymir því það mun bara verða tekið til baka í verðbólgu og þá sitjum við uppi með hærri vexti. Þrátt fyrir þessa efnahagsdýfu höfum við lifað langt skeið stöðugleika í verðlagi og lægstu vaxta sem við höfum séð. Það hlýtur að vera lykilatriði að vernda þessa stöðu sem allra best, vegna þess að með því verndum við kaupmátt heimilanna og stöðugleikinn styður jafnframt fyrirtæki í því að halda áfram að fjárfesta og ráða til sín fólk."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér