Bjartsýnustu fyrirtækjaeigendur heims er að finna á Indlandi annað árið í röð og hlutfall bjartsýni/svartsýni þar er nú +88%. Mjög mikil bjartsýni ríkir einnig í hagkerfum sem framleiða umtalsvert af hráefni, til dæmis í Ástralíu, Kanada og Suður-Afríku. Miðað við niðurstöðurnar í fyrra hefur bjartsýni aukist mest á Írlandi (72 prósentustiga hækkun í +79%), í Póllandi (53 stiga hækkun í +21%) og í tveim asískum hagkerfum sem tekist hafa á við afleiðingar bráðalungnabólgunnar, annars vegar í Singapúr (92 stiga hækkun í +62%) og hins vegar á Filippseyjum (51 stigs hækkun í +50%).

Þetta eru niðurstöður úr hinni alþjóðlegu Grant Thornton skoðanakönnun meðal eigenda fyrirtækja (International Business Owners' Survey - IBOS) um væntingar þeirra til ársins 2005 voru kynntar í gær.

Vishesh Chandiok er alþjóðlegur endurskoðandi og einn eigenda Grant Thornton á Indlandi. Hann hefur eftirfarandi að segja: ?Svo virðist sem umbætur á sviði fjárhagsmála, efnahags og iðnaðar hafi orðið hraðari en búist hafði verið við hjá nýrri ríkisstjórn Indlands. Indverskt viðskiptalíf er stöðugt að eflast og styrkjast. Hagfræðingur er í fararbroddi ríkisstjórnarinnar og Indland allt mun njóta góðs af víðtækum efnahagslegum úrbótum og framsæknu indversku framtaki. Ég er sannfærður um að nánasta framtíð Indlands er björt."

Eigendur japanskra fyrirtækja eru þeir allra svartsýnustu á efnahagslíf lands síns (-27%). Svartsýnin er þó ekki jafnmikil og í fyrra (-46%) þótt Japanar væru þá líkt og nú neðstir á blaði. Japan er nú eina landið í þessari könnun þar sem hlutfall bjartsýni/svartsýni er neikvætt. Fyrir ofan Japan eru Ítalía (+7%), Spánn (+9%), Taívan (+14%) og Rússland (+14%).