„Þetta viðtal er búið!“ Á þessum orðum hefst viðtal blaðamanns Viðskiptablaðsins við Stuart Gill, breska sendiherrann á Íslandi. Ástæðan er sú að sendiherrann var spurður út í gengi Englendinga á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem nú stendur yfir. Á eftir kemur langur hlátur sendiherrans sem hallar sér svo aftur í sófa á skrifstofunni sinni.

Stuart Gill var skipaður sendiherra hennar hátignar fyrir Bretlands hönd á Íslandi í október 2013. Gill er 55 ára gamall tveggja barna faðir sem er fæddur í Sussex en alinn upp í Brighton. Hann er giftur og býr með konunni sinni í sendiráðsbústaðnum, sem er við hliðina á breska sendiráðinu við Laufásveg í Reykjavík. „Þetta er stysta vegalengd sem ég hef þurft til að fara í vinnuna á ævinni,“ segir Gill með Oxford-hreim og brosir.

Bjartur í Sumarhúsum leynist á mörgum heimilum

En er eittvað sem þér finnst skrýtið eða furðulegt við Íslendinga?

„Nei, ég myndi ekki nota þau orð. Hluti af starfinu felst í því að kynnast menningunni hérna og þess vegna reyndi ég strax í byrjun að tala við eins marga og ég gat. Eitt af þeim ráðum sem ég fékk aftur og aftur til að reyna að skilja Íslendinga var að lesa bókina Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Þó að Bjartur í Sumarhúsum sé auðvitað algjör staðalímynd og að ég þoli þær ekki, þá fannst mér hann samt hjálpa mér að skilja menningarlegan arf ykkar betur,“ segir sendiherrann.

„Þið eruð eyríki með ykkar eigin auðlindir. Og þið verjið auðlindirnar. Þið hafið í gegnum tíðina haft það erfitt á veturna þegar það er dimmt og kalt, og þessir hlutir koma saman og móta persónugerð Íslendinga,“ segir Gill.

Nánar er rætt við Stuart Gill í Viðskiptablaðinu sem kom út 10. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.