Ásgeir Jónsson tók við stöðu seðlabankastjóra þann 20. ágúst. Sextán sóttu um embættið en eftir langt og strangt umsóknarferli var Ásgeir, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, metinn hæfastur allra og skipaður í starfið. En hvers vegna sóttist Ásgeir eftir starfinu?

„Ég er lærður peningamálahagfræðingur og hlýt því að sækjast eftir því að vera seðlabankastjóri, stjórna peningaframboðinu,“ segir Ásgeir. „Hagstjórn hefur verið mér hugleikin og mitt helsta viðfangsefni á mínum ferli. Þetta er líka mjög spennandi verkefni. Ég var formaður starfshóps um endurskoðun peningastefnunnar er lagði fram ákveðnar tillögur um endurskipulagningu Seðlabankans vorið 2018 og nú er gaman að fá tækifæri til að fylgja því eftir. Ég veit vel að vera mín í Seðlabankanum er tímabundin. Ég er skipaður til fimm ára og síðan get ég mögulega setið í fimm ár því til viðbótar. Eftir störf mín hér í bankanum mun ég fara aftur í háskólann og taka upp þráðinn sem fræðimaður.“

Með fjölbreytta reynslu

Ásgeir lauk BS prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 1994 og doktorsprófi í hagfræði frá Indiana University í Bandaríkjunum árið 2001 með alþjóðafjármál, peningamálahagfræði og hagsögu sem aðalsvið. Doktorsritgerð Ásgeirs fjallaði um skammtíma sveiflujöfnun í litlu, opnu hagkerfi.

Eftir námið í Háskóla Íslands var hann ráðinn hagfræðingur verkamannafélagsins Dagsbrúnar og einnig ritstýrði hann um tíma hagfræðiritinu Vísbendingu. Eftir doktorsnámið starfaði hann í nokkur ár hjá Hagfræðistofnun , sem sérfræðingur í peningamálahagfræði. Árið 2004 var hann ráðinn aðalhagfræðingur Kaupþings og tveimur árum síðar forstöðumaður Greiningardeildar bankans, sem í kjölfar hrunsins varð Arion banki. Því starfi gegndi hann til ársins 2011. Eftir veru sína í bankanum sinnti hann meðal annars ráðgjafastörfum fyrir Virðingu og Gamma.

Svo má segja að Ásgeir hafi verið með annan fótinn í háskólanum frá því að hann kom úr námi árið 2001. Fyrst sem sérfræðingur á Hagfræðistofnun , þá lektor, síðar dósent og árið 2015 varð hann deildarforseti hagfræðideildar , þá 45 ára gamall og sá yngsti sem gengt hefur því starfi. Auk þessa hefur Ásgeir, á sínum starfsferli, skrifað fjölda bóka, fræðigreina og skýrslna fyrir stjórnvöld. Það er því óhætt að segja að Ásgeir hafi ansi fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu.

Bjó íbúð fyrir ofan fjósið

„Ég kem úr sveit, hef unnið sveitastörf og verkamannavinnu og einnig verið til sjós,“ segir Ásgeir, svona til þess að impra aðeins á því að hann hafi nú ekki setið á bakvið skrifborð allt sitt líf. Hagfræðin var heldur ekki fyrsta val Ásgeirs því eftir nám við Menntaskólann á Akureyri ákvað hann að innrita sig í líffræði við Háskóla Íslands. Hann fann fljótt að það nám átti ekki sérlega vel við hann. Eftir eina önn í líffræði hélt hann heim í Skagafjörðinn og réði sig sem háseta á togarann Skagfirðing og stundaði sjómennsku í eitt ár. Faðir Ásgeirs, Jón Bjarnason, búfræðingur og fyrrverandi þingmaður og ráðherra fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, var kennari um árabil og bóndi.

„Mín fyrstu ár bjó ég á Hvanneyri, þar sem pabbi var kennari. Við bjuggum í íbúð fyrir ofan fjósið og sagt er að ég hafi byrjað að baula áður en ég byrjaði að tala. Síðan fluttum við í Bjarnarhöfn á norðanverðu Snæfellsnesi þar sem pabbi hóf sauðfjárbúskap. Þegar ég var ellefu ára varð pabbi skólastjóri Bændaskólans á Hólum í Hjaltadal og þar bjó ég fram undir tvítugt.“

Ásgeir segir að búsetan í sveitinni hafi mótað hann að ákveðnu leyti. „Ég var auðvitað sveitastrákur. Á þessum árum var ekki mikið af krökkum í kringum mig og ég var því alinn upp með fullorðnum. Ég las mjög mikið þegar ég var ungur og er dálítill einfari.

Ég hafði alltaf mikinn áhuga á stjórnmálum og þjóðfélagsmálum. Ég var mjög vinstri sinnaður þegar ég var yngri eins og ég á ættir til. Í minni fjölskyldu fór fólk eiginlega bara tvær leiðir í lífinu. Annaðhvort fór það að búa eða í líffræði. Ég er góður í raungreinum og þess vegna fór ég á náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri og síðan í líffræði í háskólanum.“

Útmálaður sem öfga frjálshyggjumaður

Líkt og sagt hefur verið þá átti líffræðin ekki við Ásgeir og hann fór á sjó.

„Ég hef alltaf haft góð tök á íslensku og mikinn áhuga á sagnfræði. Eftir sjómennskuna var ég búinn að sannfæra sjálfan mig um það að ég gæti sjálfur kennt mér sagnfræði og þyrfti ekki að læra þá grein sérstaklega í háskóla. Ég var því ákveðinn í að snúa mér að þjóðfélagsmálum og nýta stærðfræðikunnáttuna til að læra hagfræði. Sem deildarforseti kynnti ég ávallt hagfræði fyrir ungu fólki þannig að hún væri þjóðfélagsvísindi með aðferðum náttúruvísinda — þetta var sölupunkturinn. Reyndar sagði ég líka að hagfræðin hefði svör við öllum spurningum lífsins, sem varð þess valdandi að ég var útmálaður sem öfga frjálshyggjumaður og bara almennt frekar vondur maður en það er allt annað mál.“ Segir Ásgeir kíminn.

Ásgeiri þótti hagfræðin leiðinleg í byrjun.

„Ég hafði líka velt læknisfræðinni svolítið fyrir mér og á fyrsta árinu í hagfræðinni var ég með bakþanka yfir því að hafa ekki byrjað í læknisfræðinni. Ég ákvað samt að halda hagfræðináminu áfram og er mjög feginn því vegna þess að með hagfræðina að vopni er hægt að gera svo margt — fara svo ólíkar leiðir í lífinu. Það er óhætt að segja að það hafi tekið mig tíma að kynnast faginu. Þegar ég var krakki var ég búinn að ákveða að sama í hvaða nám ég færi þá ætlaði ég að fara alla leið og þess vegna fór ég í doktorsnámið í Bandaríkjunum. Það var sem sagt löngu ákveðið.“

Indiana University er í Bloomington , sem er lítill bær á bandarískan mælikvarða en þar búa rétt um 80 þúsund manns og er háskólinn langstærsti vinnuveitandinn.

„Tíminn úti var mjög góður að mörgu leyti. Auk þess að stunda háskólanám þá fór ég í talþjálfun. Ég stamaði mjög mikið þegar ég var krakki og varð þess vegna fyrir einelti. Í Bandaríkjunum vann ég að einhverju leyti bug á staminu.“

Lærdómsríkur tími

Síðasta sumar samþykkti Alþingi að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og mun sameiningin ganga í gegn um áramótin. Fyrir þessa sameiningu var talað um að Seðlabankastjóri hefði mjög mikil völd. Eftir sameininguna má færa sterk rök fyrir því að fyrir utan ráðherra verði enginn einstaklingur valdameiri en seðlabankastjóri.

„Mér er fengið töluvert mikið vald. Það verða þrír varaseðlabankastjórar undir mér, sem er mjög gott. Eftir sameininguna þarf enginn að efast lengur um það hver ber ábyrgð á fjármálakerfinu. Það verður þessi sameinaða stofnun og því fylgir mikil ábyrgð fyrir mig.“

„Ég ætlaði mér aldrei að verða bankamaður. Ég var 33 ára þegar ég var gerður að aðalhagfræðingi Kaupþings, sem er mjög ungt. Þannig dróst ég inn í fjármálageirann. Þetta tímabil hjá Kaupþingi og Arion var mjög lærdómsríkt — ég öðlaðist mjög dýrmæta reynslu. Ég held að enginn skilji banka nema hafa unnið í banka.“

Auðmjúkur gagnvart valdinu

„Staðan hjá Kaupþingi sýndi mér einnig fram á fallvaltleika valda og vinsælda. Þegar ég var aðalhagfræðingur Kaupþings vildu allir vera vinir mínir. Mér var hossað töluvert. Síðan þegar bankinn féll þá snérist þetta við. Þá sá ég hverjir voru vinir mínir og hverjir ekki. Þetta er mér mjög ofarlega í huga í dag og ég þess vegna tek ég við þessu nýja starfi seðlabankastjóra af æðruleysi. Eineltið í æsku og sú reynsla sem ég öðlaðist í hruninu kenndi mér margt og herti mig. Maður á ekki að hafa of miklar áhyggjur af því hvað öðru fólki finnst um mann sjálfan heldur á maður að standa með sjálfum sér og sínum skoðunum og það hef ég alltaf reynt að gera. Ég er mjög auðmjúkur fyrir því valdi sem ég hef fengið hér í Seðlabankanum og meðvitaður um að auðvelt er að ánetjast því.“

Eins og áður sagði þá var Jón, faðir Ásgeirs, þingmaður um árabil og ráðherra. Spurður hvort stjórnmálin hafi aldrei heillað svarar Ásgeir: „Ég hef aldrei verið í stjórnmálaflokki. Hagfræðingar telja sig gjarnan vera hafna yfir stjórnmál og leita frekar að praktískum lausnum. Ég hef aftur á móti alltaf haft gaman af stjórnmálum en mér finnst þátttaka í fjöldahreyfingu eins og stjórnmálaflokki að ákveðnu leyti takmarkandi fyrir mig sem einstakling.“

Viðtalið í heild má lesa í bókinni 300 stærstu . Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .