Moss Bros hefur staðfest að því hafi borist viljayfirlýsing frá félagi sem Baugur hyggst stofna, ásamt fleiri fjárfestum, um að kaupa í reiðufé hlutafé í fyrirtækinu á 42 pens á hlut. Moss hefur veitt hinu nýja fyrirtæki aðgang að bókhaldi félagsins fyrir gerð áreiðanleikakönnunar.

Fram kom á fréttavef Dow Jones í gær að framkvæmdastjóri Moss Bross, Mark Bernstein, hefði ákveðið að sitja hjá þegar ákvörðunin var tekin. Moss Bross staðfestir að hið nýja fyrirtæki hafi samþykkt að upplýsingar um viljayfirlýsinguna yrðu birtar. Hins vegar sé ekki víst að formlegt tilboð verði gert í félagið.

Markaðsvirði Moss Bros er nú um 40 milljónir punda, eða sem svarar til ríflega 5,2 milljarða króna. Gengi félagsins hækkaði um 5% í gær og var lokagengi þess 41,75 pens á hlut, en fór hæst í 42,75 pens í gær. Á liðnum tólf mánuðum hefur markaðsverðmæti þess lækkað um rúm 46%. Baugur hefur verið hluthafi í Moss Bros um tíma og á nú tæplega 30% hlut í félaginu í gegnum Unity Invest. Miðað við 42 pens á hlut hljóðar tilboðið í 70% af félaginu upp á um 28 milljónir punda, eða sem nemur tæplega 3,7 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .