Fjárfestingasjóðurinn CVC Capital Partners hefur boðið 5,1 milljarða danskra króna eða um 62 milljarða króna í verslanakeðjuna Matas. Tilboðið stendur til 28. maí að því er segir í frétt á netútgáfu Berlinske. Sem kunnugt er hafði Baugur uppi áform um að bjóða í keðjuna.

Matas-keðjan rekur 291 verslun um alla Danmörk. Kauptilboðið nú jafngildir því að greitt sé 17,5 milljónir danskra króna fyrir hverja verslun sem er án efa miklu hærra verð en menn áttu von á í upphafi.

Stjórnarformaður Matas, Lars Frederiksen, segir að til að tilboðinu verði tekið þurfi 120 af 180 hluthöfum að samþykkja tilboðið. Hann rekur persónulega sjö búðir á Kaupmannahafnarsvæðinu og í samtali við Politiken í morgun segist hann vera búinn að gera upp hug sinn og hyggist taka tilboðinu. Það ætti ekki að koma á óvart þar sem hann fengi sjálfur um 1,5 milljarð króna í vasann miðað við tilboð CVC.

Baugur mun gera kauptilboð í dönsku verslunarkeðjuna Matas, sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri Baugs á Norðurlöndum í samtali við Börsen í lok mars síðastliðins.

?Við höfum fylgst með Matas um tíma. Fyrirtækið er áhugavert og við höfum mikinn áhuga á að gera kauptilboð," sagði Skarphéðinn Berg við sama tækifæri. ?Við höfum áhuga á að vinna með núverandi stjórnendum, sagði hann.