Íslenska farsímafélagið 09 MOBILE hyggst hefja farsímaþjónustu hér á landi og boðar umtalsverða lækkun farsímagjalda. Í tilkynningu kemur fram að 09 sérhæfir sig í að bjóða ódýr farsímagjöld milli landa. 09 hefur nú þegar gengið frá reikisamningum sem tryggja viðskiptavinum 09 farsímagjöld frá 190 löndum sem eru allt að 80% lægri en almennt gerist auk þess sem notendur 09 þurfa ekki að greiða fyrir móttöku símtala í 140 löndum.

Í tilkynningu kemur fram að eftir viðamikinn undirbúning og prófanir síðustu misseri var þjónusta íslenska farsímafélagsins 09 kynnt í fyrsta skipti á alþjóðlegri viðskiptaráðstefnu sem haldin var á Miami í Bandaríkjunum nýlega. Félagið fékk mjög góðar viðtökur og segir Lárus Jónsson framkvæmdastjóri 09 að það gefi góð fyrirheit um að áætlanir um öra uppbyggingu félagsins muni standast.


Þá hefur farsímafyrirtækið 09 nýverið gengið frá samningi um að alþjóðlega tæknifyrirtækið TynTec annist alla SMS þjónustu félagsins. Með samningnum fær 09 aðgang að einu víðfeðmasta og þróaðasta SMS neti sem völ er á í heiminum í dag.

?Samningurinn við TynTec er frábær lausn fyrir okkur því með honum fær 09 skjótan aðgang að mjög áreiðanlegu SMS neti sem teygir sig um allan heim án þess að við þurfum að eyða miklum tíma og fjármunum í byggja upp okkar eigið kerfi,? segir Lárus.

Farsímafélagið 09 er einnig þátttakandi í útboði Póst- og fjarskiptastofnunar á tíðniheimildum til að starfrækja nýtt farsímakerfi hér á landi en búist er við að fljótlega verði tilkynnt hverjir hljóta þær tvær heimildir sem veittar verða að þessu sinni.

?Miðað við tækjakost okkar og þá miklu reynslu sem við búum yfir teljum við okkur vera í mjög góðri aðstöðu til að lækka farsímagjöld Íslendinga umtalsvert, verði okkur úthlutað tíðni heimild hér á landi,? segir Lárus Jónsson framkvæmdastjóri 09.