SPRON og Frjálsi fjárfestingarbankinn riðu á vaðið þann 18. júní sl. með úrræði fyrir lántakendur með lán í erlendri mynt þar sem lántakendum var boðið að greiða kr. 5.500.- á mánuði fyrir hverja upphaflegu milljón lána sinna.  Því er fagnað að önnur fjármálafyrirtæki hafi nú ákveðið að fylgja þessu fordæmi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem slitastjórnir SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans hafa sent frá sér.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að SPRON og Frjálsi fjárfestingarbankinn munu bjóða lántakendum sínum þá útfærslu úrræðisins sem nú býðst öðrum lántakendum, þ.e. að greiða kr. 5.000.- á mánuði fyrir hverja upphaflegu milljón.  Jafnframt er áréttað að viðskiptavinum Frjálsa fjárfestingarbankans með bílalán í erlendri mynt stendur til boða að greiða kr. 15.000.- á mánuði fyrir hverja upphaflegu milljón.

Þá er vakin athygli á því að ofangreind úrræði SPRON og Frjálsa fjárfestingabankans eru ekki bundin við íbúðalán heldur býðst einnig fyrirtækjum að nýta sér þau að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.