Aðalfundur danska verslunarrisans Intersport Danmark A/S samþykkti á fundi sínum í gær að ganga til viðræðna við íslenskan fjárfestahóp sem samanstandur af fjárfestingarsjóðnum Kcaj og Straumi-Burðarás Fjárfestingabanka. Kcaj er fjárfestingarsjóður í umsjón fjárfestingarfélagsins Arev sem er að stærstum hluta í eigu Jóns Schevings Thorsteinssonar.

Elín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Arev verðbréfa hf., staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að viðræður væru hafnar en gat að öðru leyti ekki tjáð sig um málið. Samkvæmt fréttatilkynningu sem Intersport sendi út hefur félagið 14 daga til að fara yfir tilboðið.

Intersport hefur verið í söluferli undanfarið og eftir að nokkrir aðilar lýstu yfir áhuga sínum var ákveðið að ganga til viðræðna við íslensku fjárfestana. Intersport er verslunarsamlag sem samanstendur af 79 verslunum í Danmörku og þarf að fá samþykki hvers og eins verslunareiganda fyrir kaupunum. Í frétt í danska viðskiptadagblaðinu Børsen kemur fram að fjórir aðilar höfðu lagt in tilboð. Þar er einnig haft eftir Oscar Crohn, framkvæmdastjóra hjá Straumi, að Intersport sé fyrirtæki sem eigi mikla vaxtarmöguleika. Þar er sömuleiðis haft eftir stjórnarformanni Intersport, Anders Høiris, að tilboð íslensku fjárfestanna sé gott.

Kcaj hefur fjárfest töluvert í smásöluverslun í Bretlandi og meðal eigenda eru Máttur og JST Holding ehf.