Fyrirtækið Loftmyndir ehf. hefur gert umhverfisráðuneytinu tilboð í rekstur og skuldbindingar Landmælinga Íslands. Fyrirhugaðar eru breytingar á lögum um Landmælingar Íslands á þann veg að stofnunin hverfi úr samkeppnisrekstri. Undanfarið hefur ekki verið ráðið í störf sem losna hjá stofnuninni sem nú er staðsett á Akranesi. Hefur það haft í för með sér að nokkuð hefur fækkað í starfsliði stofnunarinnar á Akranesi.

Frumvarp það sem nú er fyrirhugað er afrakstur starfa nefndar sem skipuð var á sínum tíma til þess að fara yfir grundvöll að starfsemi stofnunarinnar. Mun stofnunin því meðal annars hætta útgáfu og sölu landakorta sem fyrirtækið hefur gefið út um áratuga skeið.

Loftmyndir ehf. var stofnað í maí 1996 í þeim tilgangi að beita nýjustu tækni við töku loftmynda. Eigendur Loftmynda ehf. eru Hönnun hf. og Ísgraf ehf.. Fyrirtækið hefur það að markmiði að byggja upp stafrænt landfræðilegt gagnasafn af öllu Íslandi. Unnið hefur verið að þessu frá árinu 1998. Til þess að styrkja þetta starf var haustið 2001 gert samkomulag milli Loftmynda og Ísgrafs um að Loftmyndir yfirtækju kortagerðardeild Ísgrafs. Með þessu eru Loftmyndir ehf orðið öflugt alhliða fyrirtæki á sviði kortagerðar og landfræðilegrar gagnavinnslu. Hjá fyrirtækinu starfa nú sex manns.