Hæsta boð fyrir fyrsta tíst Jack Dorsey, stofnanda Twitter, stendur nú í 2,5 milljónum dala, ígildi um 320 milljóna króna. BBC segir frá .

Dorsey skráði tístið – sem í stendur „er að setja upp twttr [nafn miðilsins í þá daga] aðganginn minn“ („just setting up my twttr“) og var birt í mars 2006 – til sölu á söluvefnum Valuables by Cent, sem selur svokölluð einstök stafræn skírteini (e. Non-fungible token eða NFT).

Slík skírteini tilgreina eignarhald stafræns efnis á borð við myndir, myndbönd og annað efni á vefnum, þar á meðal tíst. Upplýsingarnar eru svo geymdar á bálkakeðju, sem tryggir að aðeins einn eigandi er tilgreindur fyrir hvert „efni“, að minnsta kosti innan þess tiltekna kerfis.

Kaupandi tísts Dorsey fær auk skírteinisins lýsigögn (e. metadata) tístsins, meðal annars birtingartíma og innihald þess, en þar sem tístið verður óhreyft á Twitter eru þær upplýsingar þegar aðgengilegar öllum og verða áfram.

Órökrétt óðagot rafmyntamarkaða
Mörgum kann að þykja erfitt að skilja fyrir hvað nákvæmlega er verið að greiða slíka upphæð. Stofnendur Valuables by Cent bera skírteinin saman við eiginhandaráritanir eða álíka, sem geta haft verðgildi vegna tengingar við höfundinn og einstaks eðlis síns.

Rory Cellan-Jones, fréttaritari BBC í tæknimálum, segir þó erfitt að verjast þeirri hugsun að einungis sé um að ræða nýjustu birtingarmynd þess órökrétta óðagots sem einkennt hafi markaði tengda rafmyntum og bálkakeðjum nýverið.