Ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air ætlar að bjóða farþegum sínum frá Bretlandi upp á ódýrari COVID-19 próf en þekkist þar í landi eins og staðan er í dag. Með þessu vonast flugfélagið til að breskir ferðalangar kjósi fremur að ferðast með sér fremur en öðrum samkeppnisaðilum. Wizz Air hefur í gegnum tíðina lagt mesta áherslu á flugleiðir innan Austur-Evrópu en hefur á undanförnum árum lagt æ meiri áherslu á Vestur-Evrópu. Reuters greinir frá.

Í fréttatilkynningu vegna málsins greindi Wizz Air frá því að farþegar gætu fengið að taka COVID-19 próf fyrir eða eftir flug og kostar hvert próf 85 pund (um 15.500 krónur).

Neikvæð niðurstaða er forsenda þess að fólki sé veitt innganga í ýmis lönd innan Evrópu og nýjar reglur í Bretlandi, sem kveða á um að fólk losni úr sóttkví fimm dögum eftir inngöngu í landið að því gefnu að sýni þeirra reynist neikvætt, þykir líklegt til að lífga aðeins upp á ferðalög til og frá landinu.