*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Erlent 19. apríl 2021 19:58

Bjóða ferðamönnum bólusetningu

Stjórnvöld á Maldíveyjum hyggjast byrja að bjóða ferðamönnum Covid bóluefni við komu.

Ritstjórn

Stjórnvöld á Maldíveyjum, sem þykja einn flottasti ferðamannastaður í heimi, hyggjast byrja að bjóða ferðamönnum bólusetningu fyrir Covid-19 við komu. Abdulla Mausoom, ferðamálaráðherra Maldíveyja, tilkynnti þetta í viðtali við CNBC í síðustu viku. 

Mausoom kallar þessa áætlun „3V“ sem stendur fyrir „visit“, „vaccinate“ og „vacation“. Hann tók ekki fram hvort ferðamenn þurfi að greiða fyrir bóluefnið en sagði þó að framboðið yrði ekki vandamál. Landið hafi fengið bóluefni frá Indlandi, Kína og í gegnum Covax átaks Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar ásamt því að hafa pantað frekari skammta frá Singapúr. Enn á þó eftir að tilkynna hvenær bólusetning verður boðin ferðamönnum. 

Þetta er ekki fyrsta átakið sem stjórnvöld í Maldíveyjum kynna til leiks í faraldrinum til að kynda undir áhuga ferðamanna. Á síðasta ári byrjuðu eyjarnar með vildarkerfi, ekki ólíkt þeim sem flugfélög bjóða upp á, þar sem ferðamenn safna punktum fyrir fjölda heimsókna og lengd þeirra. Einnig er hægt að fá viðbótar punkta fyrir að fagna sérstökum tilefnum á eyjunum. 

Ferðamannaiðnaðurinn vegur beint og óbeint um 67% af vergri landsframleiðslu Maldíveyja. Í venjulegu árferði koma um 1,7 milljónir ferðamenn árlega. Á síðasta ári voru þeir einungis um 555 þúsund sem þótti þó nokkuð vel af sér vikið miðað við ástandið í heiminum, að því er kemur fram í umfjöllun Forbes. Í ár hafa 350 þúsund ferðamenn, aðallega frá Indlandi, farið til eyjanna.

Á föstudaginn síðasta tilkynnti ferðamálaráðuneytið um að fólk sem væri búið að fá bólusetningu mætti ferðast til eyjanna án nokkurra takmarkana, tveimur vikum eftir að hafa fengið seinni skammtinn. Þeir sem ekki hafa fengið bólusetningu þurfa að fá neikvætt PCR-vottorð fyrir komu.

Samkvæmt Reuters eru um 28,6% af rúmlega 500 þúsund íbúum eyjanna fullbólusettir og Mausoom segir að 90% af framlínufólki í ferðamannaiðnaðinum hafa verið bólusett. 

Maldíveyjar er ekki eina ferðamannaþjóðin sem hefur ráðist í óhefðbundnar ráðstafanir til að hvetja ferðamenn til að koma. Stjórnvöld á Möltu tilkynntu á dögunum um að þau myndu greiða allt að 100 evrur upp í hótelkostnað fyrir hvern ferðamann í sumar. Alls munu þau verja 3,5 milljónum evra í verkefnið. 

Stikkorð: Maldíveyjar