FlyOver Iceland, sem staðsett er úti á Granda, hefur tekið til sýningar nýtt sýndarflug. Flogið er þvert yfir Kanada, frá vestur- til austurstrandarinnar, um 6.000 km leið. FlyOver Canada í Vancouver er einnig að sýna Íslands-myndina þannig Kanadabúar og Íslendingar geta „heimsótt“ hvort landið fyrir sig án þess að ferðast út fyrir landsteinanna.

„Fyrir okkur sem elskum að ferðast og höfum lítið komist undanfarið er þetta frábær tilbreyting.“ Segir Helga María Albertsdóttir, aðstoðar framkvæmdarstjóri FlyOver Iceland. „Svona fær maður forsmekkinn af nýjum stað og fiðring í magann.“

Í Kanadísku myndinni er svifið yfir stórbrotið landslag, Klettafjöllin og Níagrafossa svo dæmi séu tekin. Þá koma kúrekar, íshokkíleikmenn, lest og skíðafólk á þyrlu við sögu. FlyOver Iceland sýningin verður áfram sýnd ásamt þeirri nýju. Hægt er að kaupa staka miða eða miða á báðar sýningar.

Hjá Flyover Iceland er gestum boðið í sýndarflugferð yfir stórbrotna náttúru Íslands. Sérsmíðuð sæti lyftast og hreyfast með myndinni sem gefur áhorfandanum þá tilfinningu að hann svífi yfir landið. Notast er við nýjustu tækni í kvikmyndagerð til að sýna stórkostlegt landslag Íslands. Vindur, hljóð og lykt virkja skilningarvitin og auka á upplifunina.