Fjármálatæknifyrirtækið WeltSparen hefur kynnt til sögunnar markaðstorgið SavingGlobal þar sem sparifjáreigendur geta borið saman vexti í bönkum út um alla Evrópu. Þannig geta neytendur tryggt sér hæstu vextina hverju sinni.

Að jafnaði eru vextir í Ítalíu um tvöfalt hærri en þeir eru á Spáni. SavingGlobal vitnar í skýrslu sem bendir til þess að þýskir neytendur hafi tapað um 190 milljörðum evra á síðustu fimm árum vegna þess hvað vextir þar eru miklu lægri en annars staðar.

Segja má að um svipaða hugmynd sé að ræða og þá sem lá að baki Icesave á sínum tíma. Neytendur í lágvaxtalöndum á borð við Þýskaland geta notið þeirra háu vaxta sem bjóðast í öðrum löndum.

Samkvæmt frétt Business Insider býður SavingGlobal ekki ennþá upp á app fyrir snjallsíma þar sem fyrirtækið væntir þess að helstu viðskiptavinir þess verði sparifjáreigendur sem eru komnir yfir miðjan aldur. Fyrirtækið er þó að vinna að appi.