CME Group, eitt stærsta og öflugasta fyrirtækið á mörkuðum fyrir afleiðusamninga og fjármálaviðskipti ýmis konar hefur ákveðið að hefja sölu á Framvirkum samningum með Bitcoin, en rafmyntin hefur risið mjög hratt í verði á árinu, sem gæti, ásamt auknum viðskiptakostnaði, verið að draga úr möguleikanum á að nota hana sem raunverulega viðskiptamynt að því er WSJ segir frá.

Hefur tilkynningin haft áhrif á markaði með Bitcoin, en rafmyntin styrktist í verði frá fimmtudeginum 30. október til 1. desember þegar ákvörðunin var tilkynnt um nálega 1.000 Bandaríkjadali, eða úr 6.100 dölum hver eining upp í 7.000 dali, en þegar þetta er skrifað jafngildir ein Bitcoin 1,2 milljónum íslenskra króna, eða tæplega 11.800 Bandaríkjadölum.

Viðskiptin hefjast 18. desember næstkomandi að því er CNBC greinir frá, en fleiri fyrirtæki hyggjast bjóða upp á svipaða samninga á næstunni. Hyggst Nasdaq bjóða upp á framvirka samninga í rafmyntinni á öðrum ársfjórðungi næsta árs.

Framvirkir samningar virka þannig að tveir aðilar geta gert samning um afhendingu á vöru eftir ákveðinn tíma á verði sem samið er fyrir fram um, en þeir hafa verið til staðar frá því seint á 19. öld að því er Business Insider greinir frá.

CME Group, sem stendur fyrir Chicago Mercantile Exchange & Chicago Board of Trade, miðar við að lágmarksverðmunur sem hægt er að veðja á séu fimm dalir, eða 25 dalir á hvern samning. Sérhver aðili getur einungis skráð sig fyrir að hámarkið 1.000 samningum, og er hámarkssveiflan miðað við 20% yfir eða undir því verði sem áður var samið um.