Leigufélagið Heimavellir hyggjast koma til móts við leigjendur hjá félaginu sem lenda í erfiðleikum með að standa skil á greiðslu húsaleigu á næstu mánuðum vegna áhrifa útbreiðslu kórónuveirunnar Covid 19 á efnahagslífið og samfélagið.

Fyrirkomulagið er með þeim hætti að þeir sem verða atvinnulausir, eða þurfa að taka á sig skert starfshlutfall, geta sótt um greiðslufrest á hluta húsaleigu sem jafngildir sömu krónutölulækkun og ráðstöfunartekjur leigutaka lækka vegna breytingu á atvinnuhögum hans.

Greiðslufresturinn getur varað í allt að 6 mánuði og verður að hámarki 50% af húsaleigu hvers mánaðar frestað.
Eftirstöðvum leigunnar verður hægt að dreifa yfir allt að 24 mánaða tímabil að 6 mánaða greiðslufrestinum liðnum.
Lengd greiðslufrestarins og endurgreiðslutími leigunnar byggir á gildistíma gildandi leigusamnings á þeim tíma sem gengið er frá greiðslufrestinum.

Félagið segir þetta úrræði verða öllum leigjendum sem uppfylli nánar tiltekin skilyrði sem verði tilgreind á heimasíðu félagsins, þar sem jafnframt er stefnt að því að setja upp sérstakt svæði þar sem fjallað verður nánar um úrræðið og hvernig hægt verður að sækja um greiðslufrestinn.