*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 17. mars 2020 10:20

Bjóða helmingslækkun leigugreiðslna

Leigutakar hjá Ölmu geta fengið 50% lækkun í þrjá mánuði og dreift restinni í allt að tvö ár, ef missa vinnu eða tekjur.

Ritstjórn
María Björk Einarsdóttir er framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins sem rekur leiguþjónustuna Ölmu.
Haraldur Guðjónsson

Alma, eða Almenna leigufélagið eins og það var áður þekkt, hyggst koma til móts við leigutaka, þá sérstaklega þá sem missa vinnuna eða tekjur, vegna fyrirséðra efnahagslegra áhrifa útbreiðslu Covid 19 veirusýkingarinnar frá Wuhan borg í Kína.

Þeir sem úrræðið nær til geta þannig lækkað leigugreiðslur sínar um 50% yfir þriggja mánaða tímabil, og dreift eftirstöðvunum á allt að 24 mánuði, þeim að kostnaðarlausu.

Aðgerðirnar eru unnar í samráði við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, og miða að því tryggja húsnæðisöryggi þeirra leigutaka, sem orðið hafa fyrir vandræðum vegna útbreiðslu veirunnar, á komandi mánuðum.

María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Ölmu, segir aðgerðirnar taka mið af þeirri stefnu félagsins að stuðla að traustum og öruggum leigumarkaði. Það sé og hafi alltaf verið stefna Ölmu að koma til móts við viðskiptavini þegar í harðbakkann slær, en komandi tímar kalli sérstaklega á skýrar aðgerðir. 

„Við horfum nú upp á algjörlega fordæmalausa stöðu, þar sem bæði heilsu og atvinnuöryggi fólks er ógnað með áður óséðum hætti. Húsnæðisöryggi er grundvallaratriði í lífi all flestra og við viljum leggja okkar af mörkum til að tryggja að sá þáttur standi óhaggaður hvað sem öðru líður,“ segir María Björk.

Úrræðið mun að hennar sögn standa þeim til boða sem misst hafa vinnuna í uppsögnum en einnig sjálfstætt starfandi einstaklingum sem hafa orðið fyrir miklu tekjutapi vegna ástandsins. Hún hvetur viðskiptavini sem lent hafa í vandræðum vegna veirunnar til að hafa samband við félagið og senda viðeigandi gögn og upplýsingar svo unnt sé að virkja úrræðin.

„Við bendum fólki sérstaklega á þá rafrænu þjónustu sem við bjóðum, en hafa má samband við okkur og koma á framfæri gögnum í gegnum Facebook síðu félagsins og með tölvupósti,“ segir María Björk.

„Við hvetjum þá sem geta til að nýta slíkar lausnir frekar en að mæta á skrifstofuna, bæði til að minnka smithættu vegna COVID-19, en auk þess gengur veigamikill hluti umhverfisstefnu félagsins út á að fækka óþarfa og mengandi bílferðum.“

 

Hún segir mikilvægt að fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð í þeirri stöðu sem upp er komin eftir því sem þau frekast geta, þó róðurinn verði tvímælalaust þungur næstu mánuði.

„Óvenjulegir tímar kalla á óvenjulegar aðgerðir. Þó komandi mánuðir muni tvímælalaust reynast mörgum fyrirtækjum erfiðir er það mikilvægur hluti samfélagslegrar ábyrgðar að félög í okkar geira komi til móts við sína viðskiptavini og skjólstæðinga þegar á reynir,“ segir María Björk.

„Við finnum sannarlega fyrir högginu sjálf og berum ábyrgð á okkar fjárhagslegu skuldbindingum, viðhaldi eigna og gagnvart okkar starfsfólki. Aftur á móti vildum við ganga eins langt og við mögulega gætum til að styðja við og halda í okkar góðu viðskiptavini.“ 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur unnið með stjórnendum Ölmu við mótun tillagnanna í því skyni að tryggja hagsmuni og öryggi leigutaka á komandi tímum. Hann segir mikilvægt að fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð í verki á erfiðum tímum.

„Það er gríðarlega mikilvægt að standa vörð um húsnæðisöryggi fólks á óvissutímum líkt og þeim sem nú stefnir í. Úrræði Ölmu er fagnaðarefni og ég vona að önnur sams konar félög fylgi í kjölfarið,“ segir Ragnar Þór.