Landsbankinn hefur hafið opið söluferli á 12,1% eignarhlut sínum í fjárfestingarfélaginu Stoðum, að hluta eða öllu leiti. Skila á tilboðum fyrir 17:00 þriðjudaginn 8. desember en bankinn áskilur sér rétt til að samþykkja einstök eða öll tilboð sem og að hafna einstökum eða öllum tilboðum.

Félagið, sem á rætur sínar að rekja til Flugleiða sem stofnað var árið 1973, og varð síðar FL Group, fór í gegnum gjaldþrotameðferð á árunum eftir fjármálahrunið, og eignuðust kröfuhafar félagið í kjölfarið áður en nýir hluthafar komu inn.

Heildareignir Stoða námu 25 milljörðum króna í lok júní á þessu ári og eigið fé var einnig um 25 milljarðar þar sem félagið er ekki skuldsett. Stoðir tapaði nærri hálfum milljarði króna á fyrri helmingi ársins, en það hafði hagnast um rétt rúmlega 2 milljarða á sama tíma árið áður.

Helstu fjárfestingar Stoða eru um 5% eignarhlutur í Arion banka, um 15% í Símanum, um 10% í TM, um 30% í breska fasteignalánafélaginu Ortus Secured Finance auk breska fasteignaþróunarfélagsins Bywater.

Nú er stærsti eigandi Stoða félagið S121 ehf., með tæplega 65% eignarhlut, en það er í eigu Jóns Sigurðssonar stjórnarformanns Stoða, Einars Arnar Ólafssonar fyrrum forstjóra Skeljungs og Örvars Kjærnested stjórnarformanns TM meðal annarra.

Landsbankinn er svo með næst stærsta hlutann, áðurnefnd 12,1%, en þar á eftir koma tveir sjóðir í stýringu Stefnis með rétt rúmlega 10% samanlagt, og loks Íslandsbanki með 2,0%. Minni hluthafar eru til að mynda Nataaqnaq Fisheries, Vindhamar, Helgafell, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Eldhrímir, Fininvest og Hofgarðar.