Fyrirliggjandi tilboð í bréf í leigufélaginu Heimavöllum hefur verið víkkað út til allt að 27% hluthafa, og hyggjast aðilarnir samanlagt bjóða allt að 4 milljarða fyrir bréfin. Tilkynnt var um ákvörðunina daginn eftir að í ljós kom að Arthur Irving fyrrverandi forstjóri Irving Oil hyggst ekki bjóða sig fram á ný í stjórn félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá liggur fyrir aðalfundi félagsins 14. mars næstkomandi tillaga um að félagið verði tekið af markaði, vegna þess að skráningin hafi ekki skilað væntum ávinningi fyrir hluthafa og félagið. Hugðust þá félög sem áttu rétt tæplega 19% í félaginu bjóða í um 17% bréfa í félaginu fyrir að hámarki 2,5 milljarða króna.

Nú hafa fleiri aðilar komið að tilboðinu, í gegnum félagið AU 3 ehf., sem er félag í eigu Alfa framtak, og bjóðast aðilarnir til að kaupa rúmlega 3 milljarða hluti í félaginu fyrir allt að 4 milljarða króna. Tilboðsverðið er eftir sem áður 1,3 krónur á hlut, en gengi bréfa félagsins við lok viðskipta í kauphöllinni í dag nam 1,23 krónum.

Þau félög sem hafa skuldbundið sig til þess að leggja tilboðsgjafanum, AU 3 ehf. til fjármagn er Sigla ehf., sem er félagið sem lagði fram upphaflega tilboðið, en það leggur til 1 milljarð króna í lánsfé. Auk þess koma nú félögin Umbreyting slhf. sem leggur fram eigin fé fyrir 1,5 milljarða, og svo félögin Varða Capital ehf. sem leggur til 1 milljarðs króna lán og Eignarhaldsfélagið VGJ ehf. sem leggur til 500 milljónir króna.

AU 3 ehf. áskilur sér að auki rétt til að auka við hámarksfjárhæðina sem það býðst til að kaupa, taki hluthafar sem eiga meira en 27% hlutafjár tilboðinu. Verður það þá gert á grundvelli lánsfjármögnunar.

Tilgangurinn er eftir sem áður sagður að greiða fyrir töku Heimavalla úr viðskiptum hjá Kauphöllinni, enda sé erfiðara að selja bréfin eftir afskráningu fyrir minni hluthafa.