*

miðvikudagur, 21. október 2020
Innlent 27. júlí 2018 14:07

Fá frest í útboði flugfélags Azoreyja

Loftleiðir, dótturfélag Icelandair, var sagt ætla að kaupa í ríkisflugfélagi Azoreyja, SATA International, en fær sex mánaða frest.

Ritstjórn

Flugfélagið Loftleiðir, dótturfélag Icelandair, er sagt hafa gert tilboð í 49% hlut í ríkisflugfélag Azor eyja, SATA International eftir að hafa komist í gegnum fyrstu umferð einkavæðingarferlisins samkvæmt fréttum frá Azoreyjum. Forsvarsmenn íslenska flugfélagsins segja það þó ekki rétt.

Viðskiptablaðið hefur áður greint frá að kaupandi ríkisflugfélagsins muni þurfa að uppfylla ýmis skilyrði stjórnvalda, en vitað er að félagið skuldar um 25 milljarða króna. Icelandair var eina félagið sem tók þátt í fyrsta hluta einkavæðingarútboðs félagsins og uppfyllti öll skilyrði þess.

Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi icelandair segir það ekki rétt að félagið hafi lagt fram tilboð, heldur hafi fresturinn í samningaviðræðunum um möguleg kaup verið framlengdur um hálft ár. „Loftleiðir hafa ekki tekið afstöðu til þess hvort formlegt tilboð verður lagt fram,“ segir Guðjón.

„Samkvæmt einkavæðingarferlinu rann í gær út frestur Loftleiða til þess svara héraðsstjórninni og lagði Loftleiðir þá fram tillögu að því hvernig samningaviðræður gætu farið fram til næstu sex mánaða. Tillagan felur ekki í sér neinar skuldbindingar fyrir Loftleiðir-Icelandic.“

Vilja reglubundnar ferðir á ákveðna staði áfram

Meðal skilyrða fyrir kaupum á félaginu af hálfu stjórnvalda á eyjunum er að áfram verði haldið uppi reglubundnum ferðum frá höfuðborg eyjanna, Ponta Delgada, til meginlands Portúgals, sem og nokkuð reglulegra ferða til annarra eyja í klasanum auk Madeira, sem er annar portúgalskur eyjaklasi á Atlantshafi.

Jafnframt að áfram verði flogið til Frankfurt í Þýskalandi, Boston og Oakland í Bandaríkjunum og Toronto í Kanada. Loks þarf væntanlegur kaupandi að halda í nafn félagsins og ráða starfsfólk frá eyjunum.„Tilboðið mun nú verða skoðað af SATA Air Acores,“ segir þó í stuttri tilkynningu frá félaginu samkvæmt frétt Destak um málið.

Fréttin hefur verið uppfærð.