Stjórnvöld á Grikklandi tilkynntu frá þeim áformum sínum í dag að þau ætli að kaupa til baka ríkisskuldabréf fyrir allt að 10 milljarða evra, jafnvirði rúmra 1.600 milljarða íslenskra króna. Upphæðin jafnast á við landsframleiðslu Íslands á síðasta ári. Endurkaupin eru liður stjórnvalda í að minnka skuldafjall landsins, að því er fram kemur á vef bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal .

Um er að ræða nokkra skuldabréfaflokka sem eru á gjalddaga á næstu áratugum og eru kjörin nokkuð betri en fjárfestar bjuggust áður almennt við. Í Wall Street Journal segir ennfremur að í viðskiptunum felist að Grikkir breyta útistandandi skuldabréfum fyrir allt að 10 milljarða evra fyrir bréf sem stöðugleikasjóður evruríkjanna gefa út.

Fjármálaráðherrar evruríkjanna komu sér saman um aðgerðir til að bjarga Grikklandi frá hugsanlegu gjaldþroti í síðustu viku. Aðgerðirnar eru í nokkrum liðum, sem m.a. fela í sér skuldaafskriftir. Endurkaup á ríkisskuldum upp á allt að 30 milljarða evra voru þar á meðal og því var búist við að Grikkir myndu fljótlega tilkynna um viðskiptin. Eigendur skuldabréfanna hafa frest fram á 7. desember til að ákveða hvort þeir vilji taka boðinu.