Með nýjum lánaflokki Íbúðalánasjóðs til nýbygginga úti á landi er ætlunin að bjóða sambærilega vexti og hægt er að fá á höfuðborgarsvæðinu í gegnum einkamarkað. Hugmyndin um lánaflokkinn kom fram sem ein af 12 tillögum Íbúðalánasjóðs til að bregðast við húsnæðisvanda úti á landi.

Einungis ein af 12 tillögum til að leysa húsnæðivanda úti á landi miðar að því að einstaklingar byggi yfir sjálfa sig og myndi þannig eign, en hinar ellefu miðast allar við frekari uppbyggingu óhagnaðardrifinna sjálfseignarstofnana til að leigja út íbúðir úti á landi .

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur víða úti á landi skapast misvægi milli byggingarkostnaðar og markaðsvirðis sem haldið hefur aftur af uppbyggingu á sama tíma og skortur er á húsnæði. Þó ná lög um svokallaðar almennar íbúðir, sem þrátt fyrir nafngiftina eru ákveðið form félagslegra íbúða, ekki utan um vandann því að laun þeirra sem skortir húsnæði eru oft ekki nógu lág til að uppfylla skilyrði laganna eins og þau eru núna um húsnæðisstuðning.

Lítið byggt víða um árabil

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, undirritaði í morgun breytingar á reglugerð sem gerir það að verkum að sveitarfélög, einstaklingar og óhagnaðardrifin félög á landsbyggðinni muni fljótlega geta tekið slík lán hjá sjóðnum.

„Það liggur fyrir að á mörgum stöðum hefur ekkert eða mjög lítið verið byggt um árabil, þrátt fyrir að eftirspurnin sé mikil og greiðslugeta hjá íbúum svæðisins góð,“ segir Ásmundur Einar og nefnir einnig að sveitarfélögin hafi sérstaklega bent á skort á viðeigandi leiguhúsnæði úti á landi. Viðskiptablaðið hefur fjallað um að atriði eins og lægri lóðaverð, merkilegt nokk, gert dýrara fyrir sveitarfélögin að styðja við þessa uppbyggingu .

„Með reglugerðarbreytingunni, sem ég undirritaði í morgun, verður hægt að fá lán til byggingar nýs húsnæðis á svæðum sem glíma við þetta sérstaka misvægi í byggingarkostnaði og markaðsverði. Það mun styðja við atvinnuuppbyggingu á mörgum stöðum og hefur reynslan af sambærilegum lánveitingum á Norðurlöndum verið góð. Ég hlakka til að sjá fólk komast í viðeigandi húsnæði sem starfar og býr á þeim svæðum sem lánaflokkurinn tekur til.“

Lán fyrir landsbyggðina verið bundin við 4,2% vexti

Sigrún Ásta Magnúsdóttir framkvæmdastjóri greininga og áætlanasviðs hjá Íbúðalánasjóði segir sjóðinn hingað til hafa verið bundinn við að bjóða fasta 4,2% vexti. „Bæði sveitarfélögum og einstaklingum á köldum markaðssvæðum þar sem hefur verið mikil stöðnun á íbúðamarkaði hefur lengi einungis boðist fjármögnun íbúðakaupa og uppbyggingar á mun hærri kjörum en við höfum verið að sjá hér á höfuðborgarasvæðinu,“ segir Sigrún Ásta.

„Hingað til hefur Íbúðalánasjóður verið bundinn við að bjóða fasta 4,2% vexti sem er hátt miðað við markaðskjör. Hugmyndin nú er að ef það fáist ekki hagstæðari lánakjör annars staðar geti fólk fengið fjármögnun hjá sjóðnum á sambærilegum vaxtakjörum og fæst á virkum markaðssvæðum.“

Skrifað undir í 100 manna sveitarfélagi

Undirritunin fór fram á Drangsnesi í Steingrímsfirði en Vestfirðir eru einmitt dæmi um landsvæði þar sem markaðsbrestur veldur því að ekki er byggt íbúðarhúsnæði þrátt fyrir mikla eftirspurn. Drangsnes eru í Kaldrananeshreppi en íbúar eru um 109 talsins. Líkt og fjallað hefur verið um ítarlega í Viðskiptablaðinu stefnir að því að lágmarksstærð sveitarfélaga verði 1.000 manns ef nýtt frumvarp ráðherra sveitarstjórnarmála, Sigurðar Inga Jóhannssonar nær fram að ganga.

Fjármögnunin er háð því að um nýbyggingar sé að ræða og er aðeins í boði á þeim stöðum þar sem opinber húsnæðisáætlun, staðfest af Íbúðalánasjóði, sýnir að skortur sé á húsnæði af því tagi sem byggja á.

Einnig er skilyrði fyrir því að geta fengið áðurnefnd lán að lántaki sýni fram á að hann fái ekki lán hjá öðrum lánastofnunum eða fái einungis lán á verulega hærri kjörum en almennt bjóðast á öðrum markaðssvæðum.

Í reglugerðinni kemur fram að markmið lánveitinganna sé að tryggja eðlilega fjölgun íbúða á þessum svæðum, aukið húsnæðisöryggi óháð búsetu auk þess að stuðla að heilbrigðum húsnæðismarkaði og viðskiptum með íbúðarhúsnæði.