Eyríkið Vanuatu, í sunnanverðu Kyrrahafinu, hyggst taka við rafmyntinni Bitcoin í skiptum fyrir ríkisborgararétt í landinu. Hægt er að fá ríkisborgararétt í Vanuatu fyrir sem samsvarar 200 þúsund dollurum eða 21 milljón króna. Ein eining af Bitcoin kostar nú 4,581 dollara, um 485 þúsund krónur og því kostar ríkisborgararétturinn á Vanatu tæplega 44 einingar af Bitcoin.

Vanuatu er hluti af breska samveldinu. Með vegabréf frá Vanuatu er hægt að ferðast til 113 landa án vegabréfsáritana, þar á meðal Bretlands, Rússlands og ríkja Evrópusambandsins.

Þeir sem kaupa slík vegabréf þurfa aldrei að heimsækja eyríkið, en þar er hvorki innheimtur hefðbundinn tekjuskattur né fjármagnstekjuskattur.

James Harris, sem stýrir upplýsingamiðstöð Vanuatu ríkis segir ekki rétt líkt og sumir haldi fram að gjaldmiðla á borð við Bitcoin séu nýttir af vafasömum aðilum. Allar færslur með Bitcoin megi rekja allt aftur til fyrstu færslu með gjaldmiðilinn.

Sífellt fleiri ríki hafa á undanförnum árum farið að bjóða upp á kaup á ríkisborgararétti, og velta slík viðskipti hundruðum milljarða króna á hverju ári að því er kemur fram í frétt Business Insider .