Kaupþing mun að öllum líkindum koma til með að bjóða íslenskum lífeyrissjóðum að kaupa um 20-40% hlut í Arion banka, þetta kemur fram í frétt DV .

Ef að kaupin ganga í gegn og tekið er mið af bókfærðu eigin fé bankans, gæti slíkur hlutur selst fyrir um 40 til 80 milljarða króna.

Samkvæmt heimildum DV, þá er í raun ekkert því til fyrirstöðu að stór hluti bankans væri seldur til hóps lífeyrissjóða strax í nóvember á þessu ári, stuttu eftir kosningar til Alþingis.

Búist er við svari frá lífeyrissjóðunum seinna í þessum mánuði um það hvort að þeir vilji ganga til kaupviðræðna. Ef þetta gengur eftir gætu bandarísku vogunarsjóðirnir Taconic Capital, York Capital, Och-Ziff Capital og Abrams Capital, sem eru stærstu kröfuhafar Kaupþings, komist í eigendahóp Arion banka.

Eins og málin standa í dag, þá á Kaupþing 87% hlut í bankanum í gegnum dótturfélagið Kaupskil ehf. Bankasýsla á 13% hlut í Arion banka fyrir hönd ríkisins.