Tryggingarisinn Lloyd‘s of London mun bjóða upp á tryggingu á sendingum Covid-bóluefna. Þjónustan á að aðstoða við flutninga bóluefnisins til lágtekjulanda, að því er segir í frétt Financial Times .

Það getur verið bæði erfitt og dýrt að tryggja flutninga á bóluefni en margir vátryggjendur eru meðvitaðir um áhættur á skemmdum á leiðinni vegna hitabreytinga. Áhættan felst sérstaklega í frystingu lyfjaskammtana. Niðurstöður einnar akademískar rannsóknar gáfu til kynna að 37% af bóluefnum í lágtekjulöndum væru berskjölduð fyrir hitastigum fyrir neðan ráðlagðan hitaramma.

„Flutningar bóluefna þurfa að vera fullkomnir, annars munu þau ekki virka,“ er haft eftir Ben Hubbard, forstjóra Parsyl, sem sérhæfir sig í vátryggingum vöruflutninga.

Parsyl er komið í samstarf við Lloyd‘s vegna trygginga sem eiga að dekka hluta kostnaðarins á flutningum. Stofnfé vátryggingastarfsemi Parsyl verður um 25 milljónir dollara, eða 3,4 milljarðar íslenskra króna. Fyrirtækið mun nota gagnagreiningu til að tryggja að aðfangakeðjur verði traustari svo minna bóluefni fari til spillis.

Samkvæmt gögnum Parsyl mun fjöldi lyfja sem skemmist verða helmingi lægri ef tími bóluefna í kalda hluta keðjunnar verður styttur um tólf vikur. Í ónefndu landi voru 5% af verstu kælunum sem ollu 48% af skemmdunum.