Á tímabilinu 15. október til 30. nóvember 2023, mun Icelandair bjóða upp á flug á milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar í tengslum við millilandaflug sitt. Einungis verður hægt að bóka flugin samhliða millilandaflugi með Icelandair og fer öryggisleit fram á Akureyrarflugvelli

Á tímabilinu verður flogið þrisvar sinnum í viku frá Akureyri til Keflavíkur, á mánudögum, fimmtudögum og laugardögum klukkan 5:50 að morgni og þrisvar sinnum í viku frá Keflavík til Akureyrar á miðvikudögum klukkan 21:20 og föstudögum og sunnudögum klukkan 17:15.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að vegna styttri afgreiðslutíma í öryggisleit og ferðatíma á flugvöll munu íbúar á norðurlandi og ferðamenn þaðan geta lagt af stað á flugvöllinn á svipuðum tíma og íbúar höfuðborgarsvæðisins.

„Tengingunni er einnig ætlað að stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið og við munum nýta alþjóðlegt sölunet okkar til þess að byggja upp eftirspurn eftir flugi til Akureyrar á mörkuðum okkar erlendis,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Ákveðið var að hefja flugið utan háannatíma þar sem gistirými á Norðurlandi er af skornum skammti yfir sumartímann.