Tvær eignir félags Sturlu Sighvatssonar fyrrum forstjóra Heimavalla í Mosfellsbæ verða boðnar upp vegna skuldar við Lykil fjármögnun ef skuldin verður ekki greidd.

Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu, en um er að ræða eignirnar Efstaland 1 og Helgafell I spilda 7, en báðar eru þær inn í félaginu Efstaland 1 ehf. sem Sturla er forráðamaður fyrir, og nemur fjárhæð kröfunnar ríflega 56,1 milljón króna.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í októberlok var annað verkefni sem Sturla kom að í Mosfellsbæ þá í fjárhagserfiðleikum, en þar höfðu tafir orðið á framkvæmdum og kostnaðurinn farið 300 milljónum fram úr áætlunum.

Í kjölfar þess að hann sagði sig frá því sendi Ásgeir Kolbeinsson stjórnarformaður þess kaupendum íbúða sem félagið var að byggja að Gerplustræti í Mosfellsbæ bréf.

Í því var kaupendunum greint frá erfiðri stöðu félagsins en veðhafar væru tilbúnir að aflétta veðskuldum af því ef kaupendurnir myndu ljúka við afsalgreiðslum, en að öðrum kosti geti kaupendur átt hættu á að tapa innborgun sinni í félagið.