Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hefur mikla reynslu af stjórnunarstörfum og tók hún nýverið við starfi forstjóra ferðaþjónustufyrirtækisins Gray Line á Íslandi. Þórdís Lóa er stjórnarmaður í fjölda félaga, þar á meðal Félags kvenna í atvinnulífinu, en hún var í áratug meðeigandi og forstjóri Pizza Hut á Íslandi og í Finnlandi. Þá starfaði hún einnig sem yfirmaður öldrunarþjónustu Reykjavíkurborgar og sem framkvæmdastjóri hjá Félagsþjónustu Reykjavíkur.

Hvað kom til með að þú ákvaðst að taka að þér forstjórastarfið hjá Gray Line?

„Undanfarin 20 ár hef ég stjórnað fyrirtækjum og stofnunum og þar af hef ég verið í alþjóðageiranum og stýrt fyrirtæki á Íslandi og í Finnlandi. Ég þekki því vel til reksturs meðalstórra og stórra fyrirtækja, ekki síst þeirra sem starfa í alþjóðlegu umhverfi. Við erum ferðaþjónustuaðili sem þjónustar fyrst og fremst erlenda ferðamenn og þeir sem selja okkar þjónustu eru að miklu leyti erlendar ferðaskrifstofur. Þegar þetta tækifæri bauðst fannst mér það mjög spennandi.“

Er margt nýtt fyrir þér í þessu starfi samanborið við það sem þú hefur áður gert?

„Ég ólst í rauninni upp í ferðaþjónustunni fyrir 25-30 árum en þá var hún að vísu allt öðruvísi. Þá vann ég hjá ferðaþjónustuaðilum sem fóru með ferðamenn upp á fjöll en bara yfir hásumarið. Á þessum tíma vorum við með miklu færri ferðamenn og allt annað umhverfi, þannig að þó að ég þekki í raun kjarnann í ferðaþjónustunni hefur hún breyst gríðarlega. Hún hefur stækkað og dreifist meira yfir allt árið, ferðamenn eru farnir að vera meira á eigin bílum, svo að ég er að læra alveg inn á nýjan veruleika. En það sem snýr að stjórnun og rekstri er svipað óháð því í hvaða bransa maður starfar.“

Hvernig fyrirtæki er Gray Line?

„Gray Line er vel yfir 20 ára gamalt fjölskyldu- og frumkvöðlafyrirtæki.Hér er mjög skemmtileg frumkvöðlaorka og félagið hefur þróast mjög mikið frá því að vera rútufyrirtæki í að vera allsherjar ferðaþjónustufyrirtæki. Gray Line er alþjóðlegt vörumerki sem við tengjumst og við erum það sem kallast Gray Line „partner“. Það net er risastórt og er eitt stærsta af þreyingar- og útsýnisferðafyrirtæki í heimi. Við erum með 260 starfsmenn, allt að 300 á ákveðnum tímabilum, og með bílaflota upp á 70 rútur á hverjum tíma fyrir sig. Þetta er orðið svolítið umfang.“

Eruð þið nýjungagjörn þegar kemur að ykkar þjónustu?

„Orkan í þessu fyrirtæki hefur að miklu leyti beinst að vöruþróun og nýjungum. Við erum frumkvöðlar í norðurljósaferðum, en það eru 15 ár síðan við hófum þær. Við höfum sömuleiðis boðið upp á alls kyns útgáfur af vinsælum ferðum, við erum t.d. með nokkrar ólíkar tegundir af ferðum um Gullna hringinn.

Síðan höfum við líka verið að fara á nýja staði og þá landshluta sem eru dásamlega fallegir en minna hefur verið farið á, eins og Snæfellsnes og alla leið á Látrabjarg svo dæmi séu nefnd. Svo ég tali nú ekki um drottninguna í ferðum okkar þessa dagana, „Game of Thrones“, hún keyrir núna fimm daga vikunnar og leiðsögumaðurinn okkar er í búningi. Það er bara þannig þegar það koma svona margir ferðamenn að þá verðum við að vera með ýmislegt í boði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð .