Hugbúnaðarfyrirtækið Kóði býður nú upp á nýja útgáfu af Kodiak Pro þar sem notendur hafa aðgang að rauntímagögnum frá íslensku kauphöllinni jafnt sem öðrum norrænum kauphöllum. Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins .

Þar segir að Kóði hafi gert samstarfssamning við Nasdaq OMX sem í kjölfar sameiningar kauphalla á Norðurlöndum veiti notendum aðgang að dönsku, finnsku og sænsku kauphöllinni auk þeirrar íslensku.

„Íslenskur fjármálamarkaður hefur verið að taka við sér og hefur hlutabréfaeign almennings aukist aftur. Fjárfestar kalla í auknum mæli eftir þróuðum lausnum sem eru hagkvæmari en áður. Í dag er krafan orðin sú að fjárfestar geti sent viðskiptapantanir í gegnum sama tól og veitir markaðsupplýsingar. Fjárfestirinn er þar með orðinn sjálfstæðari og betur upplýstur,“ segir í fréttinni.