*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 10. desember 2017 15:04

Bjóða verðlausa gjaldmiðla

Gylfi Arnbjörnsson segir að ASÍ taki ekki eitt á sig að laun grunnskólakennara hækki umfram laun annarra.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, sagði í Viðskiptablaðinu fyrir nokkru að „til þess að hægt sé að leiðrétta kjör háskólamenntaðra opinberra starfsmanna þurfa forsvarsmenn ASÍ að stíga til hliðar og veita […] svigrúm án þess að verða vitlausir. Um leið og opinberir starfsmenn semja um aðeins hærri laun en starfsfólk á almenna markaðnum þá byrjar ASÍ að urra“. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ segist í því samhengi gera sér grein fyrir að forsvarsmenn kennara hafi verið „einkar sérlægir í afstöðu sinni til kjaramála.

„Þeir mega bara vera það mín vegna. Við höfum hins vegar gagnvart okkar viðsemjendum gert þá kröfu að það sé jafnræði milli starfsmanna sveitarfélaganna og ríkisins. Það getur verið að einn hópur telji sig eiga að njóta forgangs umfram alla aðra. Þeir verða bara að fá að hafa þá skoðun í friði.“

Verðlausir gjaldmiðlar

Gylfi segir ríkisstjórnina leggja til málanna ýmsar leiðir til lausna á vandanum í stjórnarsáttmálanum. „Ég verð þó að vekja athygli á því að það eru ekki Alþýðusambandsfélögin sem eru að fara að semja. Þeirra samningar losna ekki fyrr en að ári. Nú er ríkisstjórnin að bjóða einhverja gjaldmiðla eins og umbætur í velferðarmálum launafólks sem hluta af kjarasamningi. Þeir hópar sem eru að fara að semja líta ekki á þetta sem gjaldmiðil.

Húsnæðismál fátæks fólks, fæðingarorlof og atvinnuleysisbætur hafa aldrei verið áhyggjuefni þessara hópa. Þau hafa bara haft áhyggjur af sínu eigin kaupi. Hvernig ríkisstjórnin ætlar að nota gjaldmiðil sem er ekki gjaldgengur hjá þessum hópum sem skiptimynt verður forvitnilegt að sjá. Það er engin launung á því að ASÍ hefur í meira en hundrað ár haft áhyggjur af þessum þáttum. Við erum með miklu breiðari stefnu í kjaramálum heldur en þessir hópar. Þess vegna er það Alþýðusambandið sem hefur mótað velferðarkerfið með aðkomu sinni að kjaramálum.

Ég á ekki von á að það hafi breyst en verð að árétta að vegna framgöngu stjórnmálanna, án þess að gera Katrínu Jakobsdóttur eina ábyrga fyrir þessu því mér finnst hún nálgast þetta með lausnamiðuðum hætti, er launafólk og fulltrúar þess brennt af samskiptum við stjórnmálin. Til að skapa traust kann það að kalla á ákveðið frumkvæði. En uppleggið er þarna og um þetta viljum við gjarnan eiga samtal.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.