Fyrirtækið IntelligentX Brewing Co. hefur nú kynnt til leiks nýja tegund af bjór. Nýjungin felst ekki í innihaldi bjórsins heldur í því hvernig hann er bruggaður - en það var gervigreind sem kom að bjórbrugginu sjálfu, með hjálp gagna sem neytendur veita til forritsins.

Þannig virkar gervigreindin að Messenger-róbóti talar við fólk á Facebook og spyr það hvað þeim finnst gott í bjór og hvað ekki. Gögnin sem róbótinn aflar eru svo brædd saman í samsuðu almenningsálits og þannig „hugsar” gervigreindin upp hið ákjósanlegasta bragð í bjórinn.

„Þetta er framtíð tölvugagna,” segir stofnandi IntelligentX, Hew Leith. „Framtíðin er ekki falin í persónumiðaðri auglýsingum, eins og margir vilja meina, heldur í því að mæla skoðanir fólks og færa þeim þannig betri vöru.”

IntelligentX selur þegar fjórar tegundir af bjór, en kaupendur geta að drykknum loknum spjallað við gervigreindina og sagt henni hvað þeim fannst - hvort betur mætti fara eða hvort þeim hafi hugnast bjórinn eins og hann var.