Bjórinn Lava sem framleiddur er af Ölvisholti brugghúsi hlaut á dögunum gullverðlaun í stórri bjórkeppni í Bandaríkjunum. Alls voru 1650 bjórtegundir smakkaðar af dómurum. Lava fékk gullverðlaun í flokki reyktra bjóra. Um er að ræða keppnina „United States Open Beer Championship“ sem er haldin árlega.

Jón Elías Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Ölvisholts brugghúss, segir sigurinn mikil tíðindi en hann frétti af sigrinum fyrr í dag frá dreifingaraðila sínum í Bandaríkjunum. „Við skjótum heimsfrægum bjórum ref fyrir rass,“ segir Jón í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir sigurinn afar mikilvægan fyrir markaðssetningu bjórsins en hann er nú í dreifingu í öllum fylkjum Bandaríkjanna nema Hawaii. Lítið sé þó sent af bjórnum í hvert sinn, eða einn 20 feta gámur. „Það hverfur eins og dögg fyrir sólu. Það eru bara þeir heppnu sem fá bjórinn,“ segir Jón sem kveðst ekki eiga von á að geta annað eftirspurn vestanhafs í bráð.