Fulltrúar vestfirska saltframleiðandans Saltverks héldu í lok síðasta mánaðar til Kaupmannahafnar til að brugga samstarfsbjór með danska brugghúsinu To Øl. Afrakstur samstarfsins eru tveir bjórar, sem landsmenn munu koma til með að geta smakkað á næstunni. Gísli Grímsson, saltari hjá Saltverki, segir að hugmyndin að samstarfinu hafi kviknað síðasta sumar þegar fulltrúar á vegum brugghússins heimsóttu saltverksmiðju Saltverks á Vestfjörðum.

„To Øl er mikilsmetið brugghús sem er þekkt víða um heim og því er mikill heiður að fara í þetta samstarf með þeim. Fyrir nokkrum árum opnuðu To Øl veitingastaðinn og bjórbarinn Brus í Kaupmannahöfn og hafa þeir allt frá árinu 2015 verið að kaupa salt af okkur til þess að nota í allan mat sem gerður er á staðnum."

Gísli segir að To Øl hafi viljað brugga bjór úr tveimur af þeim salttegundum sem Saltverk framleiðir; Lava Salt og Arctic Thyme Salt.

„Þeir vildu gera hvor sinn bjórinn úr þessum salttegundum, einn súrbjór og einn saltkaramellu stout. Annar þeirra er því léttur og þægilegur á meðan hinn er dekkri og þyngri. Stout bjórinn heitir Geological og er það, líkt og nafnið gefur til kynna, skírskotun í jörðina og íslenskt landslag. Súrbjórinn heitir svo There Goes The Seawater Pipe, en sú nafngift varð til eftir að við sögðum þeim frá því að saltleiðslurnar okkar sem liggja út í sjó verði nánast árlega fyrir skemmdum vegna veðurs," segir hann kíminn.

Saltverk og To Øl gera samstarfsbjór.
Saltverk og To Øl gera samstarfsbjór.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hægt verður að smakka bjórana hér á landi áður en langt um líður.

Sögulegt samstarf

Að sögn Gísla er þetta er í fyrsta sinn sem To Øl fer í samstarfsbrugg með fyrirtæki sem er ekki annað brugghús. Sökum þess hafi bjórarnir fangað athygli bjóráhugamanna víða um veröld.

„Við brugguðum 1.000 lítra af hvorum bjór fyrir sig og var bjórunum annars vegar tappað í litlar dósir og hins vegar á kúta. Við munum svo koma til með að fá helminginn af framleiðslunni til að taka með okkur til Íslands. Að öllum líkindum fara kútarnir að hluta til niður á Skál! og svo munum við trúlega koma dósunum að á hinum ýmsu börum og veitingastöðum bæjarins. To Øl er auk þess með nokkurs konar áskriftarklúbb á heimsvísu og mánaðarlega senda þeir áskrifendum sínum bjórpakka. Bjórarnir okkar og saltið sem notað er í þá mun einmitt koma til með að vera hluti af slíkum pakka á næstunni og því ná vörurnar þannig fínni útbreiðslu. Upphaflega stóð til að bjórarnir yrðu framleiddir í takmörkuðu upplagi en súrbjórinn heppnaðist það vel að To Øl hefur mikinn áhuga á að brugga hann aftur og því er aldrei að vita nema hann verði bruggaður í meira magni."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um ólíkar umsagnir hæfnisnefndar dómaraumsagna
  • Skilyrði Landsvirkjunar fyrir að endursemja við Rio Tinto. Hafa áhyggjur af vafasömu fordæmi
  • Aðdragandi keppnisbanns Manchester City frá Meistaradeild Evrópu er skoðaður til hlítar
  • Úttekt á uppgjörum viðskiptabankanna þriggja og möguleg sala á hlut í Íslandsbanka
  • Arnar Gauti Reynisson framkvæmdastjóri Heimavalla er í ítarlegu viðtali
  • Svipmyndum af Viðskiptaþingi 2020 er brugðið upp, en þar voru margir áhugaverðir fyrirlesarar í ár
  • Verðlaunasviptingar veitingahúsageirans er skoðuð en fimm íslenskir staðir fengu viðurkenningu Michelin á dögunum
  • Rætt er við nýjan framkvæmdastjóra SagaNatura, meðal annars leiðina að því að verða 130 ára
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um Braggamálið
  • Óðinn skrifar um kórónuveiruna sem breiðist út um hagkerfi heimsins