Brugghúsið Steðji segir í umsögn um áfengislagafrumvarp Vilhjálms Árnasonar að núverandi fyrirkomulag einkasölu ríkisins á áfengi gagnist stærri fyrirtækjum á borð við Vífilfell og Ölgerðina og geri smærri fyrirtækjum erfitt um vik að veita þeim samkeppni.

Umsögnin er undirrituð af Dagbjarti Ingvari Arilíussyni, sem á brugghúsið ásamt konu sinni Svanhildi Valdimarsdóttur. Dagbjartur segir sérstaklega bagalegt að núgildandi lög banni þeim að selja ferðamönnum og öðrum gestum vöru sína „beint frá býli". „Það þrengir tekjumöguleika okkar verulega að geta ekki selt beint til neytenda."

Vörur Steðja rata ekki til Borgarness

Brugghús Steðja er staðsett í Borgarbyggð, um 30 kílómetrum frá Borgarnesi. Í umsögn brugghússins kemur fram að vegna reglna ÁTVR fáist sumar vörur Steðja gjarnan ekki í vínbúðinni í Borgarnesi. „Heimamarkaðurinn okkar er mjög mikilvægur, en það er upp á náð og miskun ÁTVR að vara frá okkur komist inn í heimabúðir. Þess má geta að engin af fastri vörutegund hjá okkur er t.d. á Akranesi og ekki hafa allar vörur frá okkur komist inn í Vínbúðina Borgarnesi."

Nefnir Dagbjartur sem dæmi að páskabjór Steðja „með fallegri mynd af Hafnarfjalli framan á," hafi ekki fengist í ÁTVR í Borgarnesi.

Steðji ódýrari á bar í Bretlandi en í ÁTVR

Þá kemur fram að Steðji hafi gert tilraunir til að koma vörum sínum í sölu á bari á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi. „Það hefur komið í ljós að þótt bareigendur séu mjög áhugasamir að taka okkar vöru inn þá hafa nær allir bareigendur gert samninga við „stóru“ aðilanna sem eru mjög hamlandi fyrir þá að breyta frá því fyrirtæki sem þeir eru í viðskiptum við."

Dagbjartur segir að til að bregðast við erfiðum aðstæðum á heimamarkaði hafi brugghúsið ákveðið að reyna sig við útflutning. Flytji Steðji nú bjór til eins bar í Bretlandi. Há gjöld séu lögð á hér á landi sem geri að verkum að „verðið á einni bjórflösku þar er ódýrari en hér í næsta nágrenni við okkur."

Samskiptin við ÁTVR stíf og ómannleg

„Við höfum ekki haft sérlega góða reynslu af samskiptum okkar við ÁTVR né reglugerðir þar innandyra. Samskiptin eru mjög stíf og ómannleg á köflum. Við einföldum spurningum sem við berum upp við starfsmenn þar innandyra þá fáum við alltaf reglugerðarsvör. Við athugasemdum/kvörtunum fáum við margra blaðsíðna lögfræðibréf tilbaka. Þar sem við höfum hvork vilja né efni á, að hafa lögfræðiteymi á okkar snærum til að hafa samskipti við ÁTVR það verðum við hreinlega að láta allt yfir okkur ganga," segir í umsögninni.

Athyglisvert er að bera afstöðu Steðja saman við þá sem Ölgerðin og Vífilfell, stærstu áfengisframleiðendur Íslands, hafa til ÁTVR og samskipta við stofnunina. Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar lýstu báðir þeirri skoðun sinni við Viðskiptablaðið að samskipti félaganna við ÁTVR væru góð og hefðu gengið vel í gegnum tíðina.

Eru fylgjandi frumvarpinu

„Við sjáum tækifæri fyrir okkur ef þetta frumvarp fer í gegn, þá myndi það auðvelda okkur að komast inn í heimaverslanir, sérverslanir og/eða beint frá býli verslunum," segir í umsögninni. Brugghúsið býst ekki við því að neysla áfengis muni aukast þó að frumvarpið yrði samþykkt og einkasala ríkisins afnumin.

Eins og greint hefur verið frá í Viðskiptablaðinu eru mjög skiptar skoðanir um frumvarpið. Þannig lýsti meirihluti aðspurðra þingmanna sig andsnúna frumvarpinu. Velferðarnefnd lagðist mjög harðlega gegn samþykkt þess. Á móti hefur Samkeppniseftirlitið , Costco og aðrir lýst sig fylgjandi því. Þá hefur Femínistafélag íslands lýst yfir hlutleysi gagnvart frumvarpinu.

Vínbúðin á Akranesi hefur fastar vörutegundir Steðja ekki til sölu.
Vínbúðin á Akranesi hefur fastar vörutegundir Steðja ekki til sölu.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Jólabjór Steðja er eina tegundin frá brugghúsinu sem fæst í vínbúðinni á Akranesi.

Úrval Steðja í Borgarnesi
Úrval Steðja í Borgarnesi
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fjórar tegundir fást úr vörulínu Steðja í vínbúðinni í Borgarnesi um þessar mundir.