Félagið Bjórböðin ehf. var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmt til þess að greiða Kraftfagi ehf. rúmlega fjórar milljónir króna. Upphaflega hafði kröfu Kraftfags verið beint að Arwen Holding ehf. en það félag var sýknað af kröfunni.

Deila málsins snerist um uppsetningu á húsnæði bjórbaðanna og reikning vegna þess. Á haustmánuðum 2016 gerðu Bjórböðin samkomulag við Arwen Holding um kaup og uppsetningu á einingahúsi úr timbri til að hýsa Bjórböðin á Árskógssandi. Samkvæmt samningnum skyldi húsið teljast afhent á fjórða byggingarstigi eftir að fokheldisúttekt væri lokið.

Á verkfundi í janúar 2017 vöktu forsvarsmenn Arwen Holding athygli á því að útvega þyrfti krana til að brúka við uppsetninguna. Þáverandi framkvæmdastjóri Bjórbaðanna gekk þá út af fundinum, hringdi í fyrirsvarsmann Kraftfags og bað þá um að redda málinu. Þeim sem ræddust við í símtalinu bar saman um það að Arwen Holding hefði átt að greiða fyrir þá þjónustu.

Verklok af hálfu Kraftfags voru í mars 2017 og gaf félagið út til Arwen Holding reikning vegna vinnunnar að fjárhæð 4,5 milljónir króna. Þá kom hins vegar í ljós að móttakandi reikningsins kannaðist ekkert við að skylda til greiðslu reikningsins hvíldi á þeim. Fór það svo að dómsmál var höfðað til innheimtu hans en kröfu þess efnis var beint aðallega að Arwen Holding og til vara að Bjórböðunum.

Misheppnað mat matsmanns

Undir meðferð málsins var dómkvaddur matsmaður til að leggja mat á einstaka þætti reikningsins. Matið var hins vegar háð þeim annmarka að lagt var til grundvallar að um útboðsverk hefði verið að ræða en ekki tímaverk. Var það því ekki lagt til grundvallar að fullu við úrlausn málsins.

Í dómi héraðsdóms, sem var fjölskipaður, kom fram að Arwen Holding hefði enga aðkomu átt að fyrrgreindu símtali. Taldi dómurinn, með hliðsjón af vitnisburði aðila, að ekki hefði verið sannað að Arwen Holding hefði veitt Bjórböðunum umboð til að skuldbinda félagið til greiðslu reikningsins. Var það félag því sýknað af kröfum Kraftfags.

Bjórböðin töldu á móti að þau hefðu aðeins haft milligöngu um að koma á samningi milli hinna félaganna tveggja. Dómurinn taldi að Bjórböðin hefðu komið fram sem viðsemjandi Kraftfags í téðu símtali og að Kraftfag hefði mátt treysta því að félagið myndi greiða fyrir verkið hvernig sem uppgjöri milli Arwen Holding og Bjórbaðanna yrði háttað síðar meir.

Niðurstaða matsmanns var að eðlilegt verð fyrir vinnuna hefði verið 3,5 milljónir króna en vissum hlutum þess var vikið til hliðar vegna fyrrgreindra annmarka. Ákveðnir hlutar reikningsins héldu sér því. Endanleg niðurstaða var að Bjórböðin skyldu greiða fjórar milljónir króna með dráttarvöxtum frá mars í fyrra.

Að endingu voru Bjórböðin tæmd til að greiða Kraftfagi 900 þúsund krónur í málskostnað. Kraftfag var aftur á móti dæmt til að greiða Arwen Holding 1,3 milljónir í málskostnað en inni í þeirri tölu er 408 þúsund krónur vegna matsgerðarinnar.