Bandaríski bjórframleiðandinn Anheuser-Busch hefur beðið kvikmyndaframleiðandann Paramount Pictures um að fjarlægja allar myndir af Budweiser bjórflöskum í kvikmyndinni „Flight“, en hún fjallar um flugmann sem er sakaður um að hafa drukkið áður en hann steig upp í farþegaflugvél.

Í bréfi til kvikmyndaframleiðandans segir Robert McCarthy, framkvæmdastjóri Budweiser, að fyrirtækið myndi aldrei leggja blessun sína yfir misnotkun á vörum fyrirtækisins og að honum þætti miður að ákveðið hefði verið að nota Budweiser bjór í myndinni að Anheuser-Busch forspurðu.

Í kvikmyndinni leikur Denzel Washington flugmann sem bjargar flugvél sinni frá stórslysi, en er sakaður um að hafa drukkið fyrir flugið. Í myndinni sést hann margoft drekka áfengi, þar á meðal Budweiser bjór.