Stærsti hluti lána Landsbankans sem fyrrum eigendur Samson bera ábyrgð á er eldri en Icesave innlánin og hluti Icesave innlána fór ekki í lánveitingar til fyrrum eigenda bankans.

Þetta kemur fram í tilkynningu til fjölmiðla frá fyrrum eigendum Samson ehf., sem eru feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson, vegna fréttaflutnings í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi.

Í tilkynningunni er tekið fram að Fjármálaeftirlitið hafi alltaf haft allar upplýsingar undir höndum varðandi lánveitingar Landsbankans til venslaðra aðila.

Tilkynningin, sem hér er birt óbreytt í heild sinni, er svohljóðandi:

„Til fjölmiðla:

Vegna rangs og villandi fréttaflutnings í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi, sunnudaginn 26. júlí, vilja fyrrverandi eigendur Samson ehf benda á eftirfarandi atriði:

1. Samson ehf. er ekki með nein óuppgerð lán hjá Landsbanka Íslands eins og skilja mátti af frétt Ríkissjónvarpsins.

2. Samson Global Holding, eignarhaldsfélag sem átti yfir 35% hlut í Straumi fjárfestingabanka hf., skuldaði Landsbanka Ísland ekki neitt í október 2008. Félagið greiddi allar eldri skuldir við Landsbankann árið 2007.

3. Landsbanki Íslands lánaði ekki Hansa til kaupa á knattspyrnufélaginu West Ham United eins og skilja mátti af umfjöllun Ríkissjónvarpsins.

4. Ekki er útistandindi sambankalán frá Landsbankanum og Glitni upp á 70 milljarða króna hjá Actavis eins og Ríkissjónvarpið heldur fram í frétt sinni. Öllu lægra lán var þó til fyrr á árum en var greitt að fullu árið 2007.

5. Það er rétt að Landsbanki Íslands lánaði Novator Pharma 200 milljónir evra við yfirtöku á Actavis árið 2007 eins og fram hefur komið í fréttum. Nam það lán um 3,5% af heildarfjármögnun þeirra viðskipta.

6. Ríkissjónvarpið vísar í frétt sinni til 30. greinar laga um fjármálafyrirtæki um lán banka til venslaðra aðila á borð við aðaleigendur. Í fréttinni er þess ekki getið að lagagreinin fjallar um bein útlán til venslaðra aðila en hún á ekki  við um yfirtökur eldri lána og ábyrgða.

7. Eignarhaldsfélagið Grettir, sem var félag í eigu Björgólfs Guðmundssonar, tók aldrei lán í Landsbanka Íslands á meðan félagið var í eigu Björgólfs, eins og skilja mátti á frétt Ríkissjónvarpsins. Hið rétta varðandi skuldastöðu Grettis og tengdra félaga kom  skýrt fram í yfirlýsingu sem Björgólfur Guðmundsson sendi frá sér 4. maí sl. Þar segir m.a:

„Mikilvægt er að leggja áherslu á, vegna skuldbindinga ofangreindra félaga (þe Grettis og Eimskips) við Landsbanka Íslands, að upphaflega lánaði Landsbankinn Gretti til að kaupa hlutabréf í Eimskipi og Icelandic þegar Grettir var í meirihlutaeigu annarra en Björgólfs. Eftir  að Björgólfur varð aðaleigandi Grettis gekkst hann í persónulegar ábyrgðir umfram skyldu sína til að treysta veð bankans og því falla nú allar skuldir Grettis hann. Ekki var stofnað til þessara skuldbindinga Grettis við bankann á meðan Björgólfur var meirihlutaeigandi í félaginu. Þessi viðskipti voru ekki íþyngjandi fyrir lausafjárstöðu bankans á árinu 2008.

Fyrirgreiðsla til eigenda banka og fjármálafyrirtækja er háð ákveðnum reglum. Lánanefnd gerir tillögu til bankaráðs, um afgreiðslu málsins. Við þá afgreiðslu víkja þeir sem hagsmuna eiga að gæta og bankaráð afgreiðir lánið. Ytri endurskoðendur hafa eftirlit með því að fyrirgreiðsla við þessa aðila sé í samræmi við kjör annarra sambærilegra aðila. Upplýsingar um þessar lánveitingar eru veittar endurskoðunarnefnd bankans og Fjármálaeftirlitinu og gerð er ítarleg grein fyrir þeim í öllum árs- og árshlutareikningum bankans. Allar ákvarðanir sem tengdust lánum til fyrirtækja Björgólfs voru í  fullu samræmi við almennar reglur um útlán banka til eigenda og stjórnarmanna í bönkum og fjármálafyrirtækjum. Björgólfur vék sæti úr bankaráði Landsbankans þegar þessi mál voru til meðferðar í ráðinu.”

8. Magnús Þorsteinsson seldi hlut sinn í Samson ehf í maí 2005 og hefur ekki verið venslaður Landsbankanum frá þeim tíma. Því er hrein firra að Ríkissjónvarpið tilgreini hann í umfjöllun sinni um áhrif 30. greinar laga um fjármálafyrirtæki á starfsemi og útlán Landsbankans.

Af þessu má ljóst vera að frétt Ríkissjónvarpsins er í mörgum meginatriðum röng og villandi.

Ríkisútvarpið vísar í heimildarmann sem segir að umtalsverður hluti Icesave innlána Landsbankans hafi farið í lánveitingar til fyrrum eigenda bankans. Þetta er rangt. Stærsti hluti lána Landsbankans sem fyrrum eigendur Samson bera ábyrgð á er eldri en Icesave innlánin og virðist heimildamaður Ríkissjónvarpsins því ekki þekkja eins vel til mála og gefið er í skyn.

Rétt er að fram komi að Fjármálaeftirlitið hefur alltaf haft allar upplýsingar undir höndum varðandi lánveitingar Landsbankans til venslaðra aðila. Fyrrverandi eigendur Samson ehf. hafa í þessum efnum ekkert að fela og treysta því að hið rétta muni líta dagsins ljós. Engu að síður telja þeir rétt að vekja athygli á augljósum rangfærslum í fréttaflutningi Ríkissjónvarpsins.“