Íslensku fjárfestarnir Magnús Þorsteinsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson hafa selt hlut sinn í rússnesku drykkjarvöruverksmiðjunni Bravo Premium. Þeir félagar héldu eftir 51% hlut í verksmiðjunni þegar þeir seldu bjórverksmiðju sína, Bravo International, í Pétursborg til hollenska bjórrisans Heineken árið 2002.

Við kaupin eignaðist Heineken 49% hlut í Bravo Premium. Að sögn Magnúsar Þorsteinsonar, sem sá um reksturinn á félaginu eftir að þeir þremenningarnir fóru út úr rekstri bjórverksmiðjunnar, náðist ágætur árangur með uppbyggingu verksmiðjunnar og var hún sú þriðja stærsta í Rússlandi þegar hún var seld. Kaupandi er rússneskur aðili, Industrial Investors, sem er aðaleigandi Russian Alcohol, sem hefur verið í framleiðslu á áfengum drykkjum og kaupir hann hlut beggja fyrri eigenda. Rússarnir höfu fyrst og fremst verið í sterku áfengi en bæta nú blönduðum drykkjum við sína línu. Kaupverð fæst ekki staðfest en í rússneskum fjölmiðlum mun hafa verið látið að því liggja að það hafi verið á milli 35 og 40 milljónir dollara eða 2,5 til 2,9 milljarðar króna. Gekk salan í gegn seint á síðasta ári.

"Reksturinn á þessu gekk vel og salan jókst milli ára en okkur þótti rétt að selja þetta í heilu lagi þegar tilboð barst," sagði Magnús. Þess má geta að Bravo Premium bjó aðeins að innri vexti og var salan komin upp í um 9 milljónir decalítra sem jafngilti um 11,5% markaðshlutdeild. Félagið framleiddi blandaða áfengisdrykki, breezera og fleiri slíka. Í byrjun síðasta árs setti félagið á markað svokallaðan Mílanó-kokkteil sem fyrst og fremst átti að höfða til kvenna og var það fyrsti drykkur þeirrar tegundar sem markaðssettur var í Rússlandi. Einnig seldi félagið orkudrykkinn DOZA.

Markaðshlutdeild Bravo Premium jókst á síðustu árum í kjölfar þess að félagið bætti dreifingarnet sitt og dró saman með þeim og Happyland sem hafði mesta markaðshlutdeild á þessu sviði. Önnur félög sem selja drykkjavörur af þessu tagi í Rússlandi eru Ochakovo og Greenall's en öll þessi félög hafa verið að auka sölu sína þó mismunandi mikið sé.

Síðan Heineken keypti Bravo International hefur það bætt við sig Central Brewing Company (CEBCO) og Sobo og er félagið núna þriðji stærsti seljandi bjórs í Rússlandi með 8,6% markaðshlutdeild.