Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson segja að engin sjálfskuldarábyrgð hafi verið veitt þegar tekið var lán í Búnaðarbankanum fyrir hluta af kaupverði Landsbankans. Í yfirlýsingu sem þeir hafa sent fjölmiðlum kemur fram að sjálfskuldarábyrgðin, sem Sólon Sigurðsson fyrrum bankastjóri Búnaðarbankans sagðist hafa farið fram á áður en Samson var lánað í tengslum við einkavæðingu Landsbankans, sé vegna annars láns sem fengið var í Kaupþingi. Fyrra lánið hafi verið greitt upp í lok apríl 2005.

Yfirlýsing feðganna er hér að neðan í heild:

Vegna rangrar og villandi umfjöllunar í fjölmiðlum um lánaviðskipti Samsonar eignarhaldsfélags ehf. og Búnaðarbanka Íslands hf. vegna kaupa félagsins á hlut í Landsbanka Íslands hf. telja fyrri eigendur nauðsynlegt að koma eftirfarandi leiðréttingum á framfæri.

Viðskipti Samsonar og Búnaðarbanka Íslands hf. hófust í apríl 2003 með lánssamningi að upphæð 48,3 milljónir bandaríkjadala. Þá höfðu eigendur félagsins átt áralöng og farsæl viðskipti við bankann.

  • - Tryggingar voru veittar með veði í hlutabréfum Samsonar í Landsbanka Íslands hf. að markaðsverðmæti sem nam tvöfaldri lánsfjárhæðinni.
  • - Þvert á yfirlýsingar fyrrum bankastjóra Búnaðarbankans þá voru engar sjálfskuldarábyrgðir gefnar vegna þessa láns.
  • Lán þetta rann til að greiða aðra greiðslu af þremur fyrir 45,8% eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. sem Samson keypti af íslenska ríkinu. Samson greiddi umrætt bankalán að fullu með áföllnum vöxtum á gjalddaga þann 29.apríl 2005, samtals að fjárhæð 51, 2 milljón bandaríkjadala.

Greiðslan og lánið voru í fullu samræmi við kaupsamning íslenska ríkisins og Samsonar sem undirritaður var 31. desember 2002. Í þeim samningi setti seljandi , íslenska ríkið, engin skilyrði um hvar kaupandi gæti tekið lán fyrir hluta kaupanna. Hins vegar var gerð krafa um að eigið fé kaupanda væri ekki lægra en 35%. Samson greiddi fyrir 45,8% hlut sinn í Landsbanka Íslands hf. eins og hér segir:

  • - Í febrúar 2003 greiddu eigendur með eigin fé erlendis frá 48,1 milljónir bandaríkjadala.
  • - Í apríl 2003 greiddu eigendur 48,3 milljónir bandaríkjadala með láni frá Búnaðarbanka Íslands hf.
  • - Í desember 2003 greiddu eigendur með eigin fé erlendis frá 42,7 milljónir bandaríkjadala.

Heildargreiðslur námu samtals 139,0 milljónum bandaríkjadala, þar af voru 90,8 milljónir fjármagnaðar af eigendum eða 65% . Þær voru greiddar að fullu inn á reikning ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Bandaríkjanna í New York í árslok 2003 og átti þá sér stað fullnaðaruppgjör vegna kaupa Samsonar á hlut ríkisins í Landsbankanum. Það er því rangt að Samson skuldi íslenska ríkinu einhverja fjármuni vegna umræddra kaupa.

Í ljósi ofangreindra staðreynda liggur þvi fyrir eftirfarandi:

  • - Samson eignarhaldsfélag ehf. greiddi íslenska ríkinu árið 2003 að fullu fyrir 45,8% hlut í Landsbanka Íslands samtals rúmlega 139,0 milljónir bandaríkjadala.
  • - Fjárframlag eigenda Samsonar við kaup á 45,8% hlut í Landsbanka Íslands nam 65% af heildarfjárhæð viðskipta, en aðeins var gerð krafa um 35% eigið fé. Eiginfjárframlag eigenda var því nærri tvisvar sinnum hærra en íslenska ríkið fór fram á.
  • - Lán sem Samson fékk frá Búnaðarbanka Íslands hf. vegna kaupa á Landsbanka Íslands hf. var greitt að fullu ásamt áföllnum vöxtum á gjalddaga í apríl árið 2005 eða fyrir nærri 5 árum.

Samson átti í frekari lánaviðskiptum við Kaupþing eftir sameiningu þess og Búnaðarbankans vegna ýmissa annarra fjárfestinga. Tvö lán voru tekin árin 2004 og 2005 sem voru að fullu greidd fyrir mitt ár 2007. Í desember 2005 tók Samson lán að fjárhæð 3,8 milljarðar króna. Tryggingar voru teknar í hlutabréfum félagsins auk sjálfskuldarábyrgðar. Hluti fjárhæðarinnar var greiddur á gjalddaga í desember 2007 og var þá gerður nýr lánasamningur um eftirstöðvar með hærri vöxtum. Áfram stóðu veðbönd á hlutabréfum félagsins og sjálfskuldarábyrgð.

Gjalddagi þessa nýja láns var 10.desember 2008 en áður en sá dagur rann upp, eða í október sama ár, hafði ríkið yfirtekið hlut Samsonar í Landsbankanum sem var helsta eign félagsins og Samson hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Það er af þessu seinni tíma láni sem Kaupþing, - nú Arion banki, hefur krafið ábyrgðaraðila um greiðslur og er það alveg óskylt kaupum á hlutabréfum Landsbankanum fyrir sjö árum. Viðræður standa yfir um uppgjör þeirrar kröfu.