Eignarhaldsfélagið Samson, sem er meðal annars í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og Björgólfs Guðmundssonar, og önnur félög tengd Björgólfsfeðgum hafa verið að styrkja stöðu sína í Landsbanka Íslands, Straumi-Burðarási, fjárfestingafélaginu Gretti og Tryggingamiðstöðinni (TM).

Samkvæmt tilkynningu til Kauphallar Íslands hefur Samson aukið hlut sinn í Landsbankanum í 41,2 % úr rétt rúmlega 40% fyrir 2,35 milljarða króna.

Ópera, félag í eigu Björgólfsfeðga, hefur einnig keypt 15,55% hlut í Gretti, sem einnig er hluthafi í Landsbankanum, af Sund ehf. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en Landsbankinn og Ópera eiga samtals 51% í Gretti eftir viðskiptin.

Við kaupin í Gretti styrkja Björgólfsfeðgar stöðu sína í Straumi-Burðarási, en Grettir er stærsti hluthafinn í bankanum.

Blátjörn -- sem er í eigu Sunds, Novators og Hansa, síðarnefndu félögunum er stjórnað af Björgólfi Thor -- hefur samþykkt að kaupa 32,9% hlut í TM fyrir 10,4 milljarða króna, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands.