*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 25. janúar 2020 15:03

Björgólfur áður sýnt Kólumbíu áhuga

Björgólfur Thor Björgólfsson hefur leitað að fjárfestingatækifærum í fleiri löndum Suður-Ameríku en Chile á síðustu árum.

Ingvar Haraldsson
Björgólfur Thor Björgólfsson var viðstaddur efnahagsráðstefnunar í Davos í Sviss í vikunni þar sem hann hlýddi meðal annars á ræðu Donalds Trump.
Aðsend mynd

Líkt og Viðskiptblaðið greindi frá í vikunni vinnur Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thor Björgólfssonar, nú að því að koma upp nýju símafélagi í Kólumbíu. Þarlendir fjölmiðlar telja sig hafa heimildir fyrir því að Novator hafi áhuga á að fjárfesta í kaupa kólumbíska hluta fjarskiptafélagsins Telefónica. Þá var gengið frá 30 mlljarða króna arðgreiðslu frá chileska félaginu WOM til Novator fyrir jól. 

Novator vann útboð í desember um úthlutun á tíðnisviðum á farsímaneti í Kolumbíu. Novator greiðir 257 milljónir dollara, um 32 milljarða króna, og þarf að sjá fyrir fjarskiptasambandi á 674 stöðum í landinu. Novator skilaði einu leyfanna þar sem fyrir mistök var boðið tífalt hærra í leyfið en til stóð, eða um sjötíu milljarða króna í stað um sjö milljarða króna.

Sjá einnig: Með augun á Argentínu

Novator hefur áður sýnt Kólumbíu áhuga. Árið 2016 átti Novator í viðræðum um kaup á kólumbíska fjarskiptafélaginu Avantel. Ekkert varð úr þeim viðskiptum. Þá sagði Björgólfur við Viðskiptablaðið fyrir tveimur árum að hann væri með fjárfestingar í Kólumbíu og Perú til skoðunar. „Það eru bæði lönd sem eru akkúrat búin að taka beygjuna og eru á leiðinni upp aftur," sagði hann.

Þá voru fjárfestingar í Argentínu einnig á teikniborðinu. Björgólfur hafði nýlega fundað með iðnaðarráðherra Argentínu á efnahagsráðstefnunni í Davos í Sviss um áhuga á að fjárfesta í landinu, en ekki hefur orðið af meiriháttar fjárfestingum þar enn sem komið er.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér