*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 9. mars 2017 12:19

Björgólfur: Áhætta ríkisins galin

Forstjóri Icelandair, Björgólfur Jóhannsson, segir galið að íslenska ríkið taki þátt í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

„Það er galið að íslenska ríkið skuli taka svona mikla áhættu við uppbyggingu á flugvellinum,“ sagði Björgólfur Jóhansson, forstjóri Icelandair Group, og tók undir orð Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamálaráðherra, sem sagði að að skoða þyrfti hvort það væri rétt að íslenskir skattgreiðendur væru að byggja upp flugvöll og reka fríhöfn.

Þetta kom fram á fundi Íslandsbanka í Hörpu þar sem kynnt var ný ferðaþjónustuskýrsla. “Þetta er eins og allur annar rekstur, áhættusamur, meira að segja áhættusamari því þetta er spurning um eftirspurn eftir flugi,” sagði Björgólfur.

„Eins með fríhöfnina, það er hluti af tekjuöflun svæðisins og það er því borðleggjandi að setja þetta í hendur einkaaðila, að hluta eða öllu leyti.“

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, ítrekaði að Keflavíkurflugvöllur væri ekki greiddur af skattgreiðendum heldur notendum. „Isavia veltir 30 milljörðum og 7% af þeirri upphæð koma frá skattgreiðendum”, sagði Björn Óli.

Björgólfur lagði hins vegar áherslu á að áhættan væri alltaf ríkisins og það væri ekki rétt fyrir íslenska ríkið að taka þessa áhættu.

„Uppbyggingin getur verið allt öðruvísi og markvissari með skýrari stefnu eigandans,” sagði hann og sló síðan á létta strengi og sagðist vita að Björn Óli væri sammála sér þótt hann segði það ekki á fundinum.