WOM, fjarskiptafyrirtæki Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, er að hefja starfsemi í Kólumbíu. Félagið kynnti verðskrá í síðustu viku og afsláttarkjör til á annað hundrað þúsund manns sem höfðu forskráð sig hjá félaginu. Félagið hefur vakið nokkra athygli með digurbarkalegum yfirlýsingum í auglýsingum og föstum skotum á keppinauta.

Því hefur innkoma WOM vakið litla hrifningu samkeppnisaðila félagsins sem hafa höfðað sautján dómsmál gegn því samkvæmt umfjöllun Bloomberg. Kólumbísk yfirvöld hafa jafnframt hafið rannsókn á meintum villandi auglýsingum WOM eftir kvartanir frá keppinautum. Þá hafa keppinautar WOM einnig heitið viðskiptavinum sínum betri kjörum samhliða innkomu WOM á markaðinn.

Umdeildar auglýsingar áður virkað vel

Stærsta félagið á kólumbískum fjarskiptamarkaði er Claro, sem er hluti af America Movil, félagi Carlos Slim, sem Forbes taldi ríkasta mann heims á árunum 2010 til 2013. Forbes telur Slim nú þann 14. ríkasta í heimi og þann ríkasta í Rómönsku-Ameríku. Auður hans er metinn á 66 milljarða dollara, eða þrjátíufaldan auð Björgólfs Thors.

Bloomberg lýsir America Movil sem mjólkurkú Carlos Slim en um þriðjungur af hagnaði America Movil er tilkominn vegna starfseminnar í Kólumbíu.

Félög Björgólfs eru að reyna að leika sama leikinn og áður hefur tekist með fjarskiptafélögin WOM í Chile, Play í Póllandi og Nova á Íslandi. Kólumbía er stærsta landið til þessa en ríflega 50 milljónir búa í þessu næstfjölmennasta ríki Suður-Ameríku.

Hinn litríki Breti, Chris Bannister, stýrir WOM í Kólumbíu en hann var einnig forstjóri WOM í Chile og Play í Póllandi, og kallar sig nú „WOM frænda“.

Formúla félaganna er áþekk. Félagið nær athygli fjölmiðla og almennings með áberandi og oft umdeildum auglýsingaherferðum og reynir um leið að bjóða ódýrari vöru en keppinautarnir.

Í Chile jókst markaðshlutdeildin úr 2% í 20% á fimm árum. Þá er Play í dag stærsta fjarskiptafélag Póllands en Novator seldi síðustu 20% sín í félaginu í september fyrir 70 milljarða króna. „Það eina sem ég þarf að gera betur, er að vera aðeins ódýrari og búa til vörumerki sem fólk elskar og þá næ ég að lágmarki í 25% markaðshlutdeild,“ segir Bannister í viðtali við Bloomberg. „Þetta er svona einfalt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .