*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 28. september 2021 19:11

Björgólfur fjárfestir í DNA fyrirtæki

Fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar leiddi 16 milljarða króna fjármögnun bresks líftæknifyrirtækis.

Ritstjórn
Björgólfur Thor Björgólfsson
Aðsend mynd

Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur fjárfest í breska líftæknifyrirtækinu Touchlight, sem framleiðir DNA genaferja (e. synthetic DNA vectors), einnig kallaðir dbDNA.

Novator og fjárfestingafélagið Bridford Investments leiddu 125 milljóna dala fjármögnun Touchlight, eða sem nemur um 16 milljörðum króna, að því er kemur fram í frétt BioPharma Reporter. Ekki er greint frá hversu stóran hlut Novator skráði sig fyrir. Í fréttinni segir að Novator og Btidford muni styðja við fyrirtækið með fjárfestingum í framleiðsluaðstöðu og rannsókna- og þróunarstarfsemi Touchlight auk þess að styðja við fyrirtækið með þekkingu sinni á heilbrigðisgeiranum.

Fram kemur að eftirspurn eftir afurðum Touchlight hefur aukist verulega á síðasta ári, en dbDNA er notað fyrir mRNA, hægveirur, adenó-veirur, genatól, DNA bóluefni og fleira. Touchlight telur að dbDNA genaferja og ensímframleiðsla fyrirtækisins geri því kleift að búa til DNA á snöggan hátt og geti þannig stutt við hraðan vöxt genalyfja.

Touchlight vinnur nú að því að stækka skrifstofur sínar í Hampton hverfinu í London en fyrirtækið hyggst fjölga DNA framleiðslustofum úr fjórum í fimmtán.